Fjárlög 1995

7. fundur
Miðvikudaginn 12. október 1994, kl. 16:05:22 (291)


[16:05]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Mig langar til að gera tilraun til að svara einhverju af því sem fram hefur komið við 1. umr. fjárlaga. Mér er ljóst að eins og endranær verður ekki hægt að svara öllu en það gefst mikill tími til þess því þetta frv. fær öðrum frv. frekar athugun í þinginu, í hv. fjárln. þar sem þingflokkar eiga sína verðugu fulltrúa.
    Í fyrsta lagi spurðist hv. þm. Jón Kristjánsson fyrir um hvort það væru nokkrar líkur á því að fyrirtæki mundu ráða fleira fólk á næstunni. Þetta hefur að sjálfsögðu nokkuð verið kannað. Það er aðallega Þjóðhagsstofnun sem fylgist með þessu og í ljós kemur við þá könnun að það er almennt gert ráð fyrir að fyrirtæki greiði niður skuldir sínar fyrst, fjárfesti síðan. En það kemur einnig í ljós að á undanförnum vikum hafa fyrirtæki verið að auglýsa meira eftir fólki en áður.
    Í þriðja lagi er það mikilvægt að fjárfestingin fari fram á vegum einkafyrirtækjanna fremur en á vegum ríkisins því sú fjárfesting sem á sér stað úti í atvinnulífinu er líklegri til að skila þjóðinni meiri hagvexti en hin.
    Nokkuð hefur verið rætt um vexti og þó hefur blandast inn í þessa umræðu sú þróun sem hefur átt sér stað á skammtímamarkaði. Það hefur komið glögglega fram í þessum umræðum að vaxtastigið hér á landi, bæði á skammtímamarkaði og eins hinum langtíma, hefur breyst. Vextir hafa lækkað verulega en menn virðast vera almennt sammála um að vextir í bankakerfinu geti lækkað meira. Ég vil fagna sérstaklega því sem kom fram hjá hv. þm. Guðna Ágústssyni, helsta sérfræðingi Framsfl. í vöxtum og efnahagsmálum. Hann gaf þá yfirlýsingu í umræðunni að vextir mundu lækka í bankakerfinu á næstunni. Eftir því var tekið og með því verður fylgst hvort það gengur eftir.
    Hv. þm. Guðmundur Bjarnason ræddi nokkur atriði sem tengjast svokallaðri langtímaáætlun og lýsti því yfir að hann teldi hana af hinu góða enda væri hún í takt við það sem Framsfl. hefði stungið upp á. Hann spurðist fyrir um hvað það þýddi þegar rætt væri um forgangsröðun í frv. Ég skal reyna að svara því með því að segja að það skiptir máli hér eins og í löndum sem búa við svipaða þjóðfélagsgerð að verja velferðarkerfið. Það verður ekki varið nema því sé breytt. Það þarf að breyta því á þann veg að koma fjármagni til þeirra sem minnst mega sín en koma í veg fyrir að hinir sem þurfa ekki á því að halda séu að fá peninga úr opinberum sjóðum. Þetta er aðalatriðið og kjarninn í umræðunni, ekki hér á landi eingöngu heldur í nálægum löndum einnig sem eiga við sams konar vandamál að glíma.
    Þess vegna er nauðsynlegt að draga úr hinu mikla fjármagni sem fer í gegnum þetta tilfærslukerfi og láta það koma að betri notum. Það er til fólk í þjóðfélaginu, sem betur fer, sem getur borgað fyrir sína þjónustu í miklu stærri stíl en gert er í dag. Það á að leyfa því fólki að borga, jafnvel fólki sem er á sjúkrahúsum, í skólum og tekur þjónustu frá hinu opinbera, þó það eigi að sjálfsögðu að sjá til þess að enginn missi af þeim rétti sínum að fá að njóta eðlilegrar læknishjálpar eða menntunar. Þetta eru atriði sem stjórnmálamenn geta ekki komið sér hjá að ræða og fást við á næstunni því annars er verið að víkjast undan hinu eiginlega vandamáli sem við er að etja í ríkisfjármálunum.
    En það þarf líka að auka útgjöld annars staðar. Þess vegna hafa þjóðirnar sem á undanförnum árum

hafa verið að fást við þessi alvarlegu mál smám saman verið að uppgötva að það þarf að beina meira fjármagni til menntunar og uppbyggingar á því sviði, einkum á sviði rannsókna og vísindastarfsemi. Vegna þess að það tekur langan tíma að byggja upp slíka þekkingu hjá þjóðinni, þekkingu sem skilar sér í betri kjörum þjóðarinnar í framtíðinni. Þess vegna geta stjórnmálamenn ekki, hvar í flokki sem þeir standa og það hefur glögglega komið í ljós t.d. í sænsku kosningabaráttunni að sænsku kratarnir hafa ekki skirrst við að segja frá því í kosningabaráttunni að það þurfi að taka á velferðarkerfinu til þess að það lifi af, til þess að bæta það og til þess að lýðræðið geti blómstrað áfram í Svíþjóð. Hið sama gildir hér á landi og það sama gildir í öllum nálægum löndum. Þetta er eitt stærsta verkefni stjórnmálamanna hvar sem þeir búa í Norður-Evrópu í þjóðfélögum sem hafa kennt sig við velferðarþjóðfélög.
    Hv. þm. sagði að Framsfl. hefði lýst því yfir að það ætti að binda útgjaldahliðina en nota hins vegar tekjurnar af aukinni þjóðarframleiðslu til að ná niður hallanum. Það er út af fyrir sig mjög gott og ég er sammála því. En það dugir ekki á næstu árum. Það dugir ekki á næstu árum. Samkvæmt spám Þjóðhagsstofnunar þá mun það ekki duga. Það þarf að draga úr útgjöldunum jafnframt. Og um það er fjallað í langtímaáætluninni sem fylgir fjárlagafrv. núna.
    Ég veit ekki hvort ég á að vera að bæta við umræðuna um skuldir og reyna að skýra það út að það er munur á skuldum ríkisins og skuldum þjóðarinnar. Það er auðvitað hárrétt og liggur í augum uppi að ef ríkið er rekið með halla ár eftir ár þá hljóta skuldirnar að safnast upp. Ef ríkið þarf að taka yfir skuldir frá hinum ýmsu sjóðum sem ekki hafa getað innheimt eignir sínar af ýmsum ástæðum og þær skuldir fara yfir á ríkissjóð þá vaxa skuldir ríkissjóðs. Það er hárrétt hjá hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni að nettóskuldir ríkissjóðs munu á þessu kjörtímabili tvöfaldast eða þar um bil. En það er jafnrétt sem sagt var í umræðunum í gær að á einu ári, fyrsta ári sem hv. þm. var fjmrh., þá tvöfölduðust skuldir hins opinbera. Þær tvöfölduðust á einu ári, það mátti margfalda með tveimur þá á einu ári eins og gera má allt kjörtímabilið núna.
    En það sem skiptir hins vegar máli er tvennt: Það þarf að takast á við þetta vandamál og það verður ekki gert nema ná niður ríkissjóðshallanum og svo er það hitt, sem ekki má gleymast, að það er byrjað að greiða niður erlendar skuldir íslensku þjóðarinnar. Það skiptir auðvitað langsamlega mestu mestu máli.
    Árið 1991 voru lánsfjárlögin opin, fjármagn streymdi úr landi, viðskiptahallinn var 20 milljarðar, ég endurtek 20 milljarðar. Það þýðir að skuldasöfnun þjóðarinnar erlendis var álíka mikil. Nú er verið að greiða þessar skuldir niður og við væntum þess að næsta ár verði þriðja árið í röð sem við verðum í því að greiða niður erlendar skuldir þjóðarinnar.
    Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson lýsti því yfir að það hefði ekki orðið lækkun á verði sjávarafurða á erlendum mörkuðum, hafnaði því. ( ÓRG: Það sagði ég ekki.) Þá biðst ég afsökunar á því en það hefur samt þýðingu vegna orða hv. þm. að segja að á árunum 1991--1994, það sýnir vandamálið sem við er að glíma, lækkaði verð á sjávarafurðum almennt miðað við vísitölu um 30%. 30% lækkun á sjávarafurðaverði á þessum árum. Lýsir nokkuð betur við hvaða vanda er að fást á högum þjóðarinnar þegar við sjáum tölur eins og þessar? ( SJS: Samt viltu skattleggja sjávarútveginn.)
    Í öðru lagi, fyrst minnst er á sjávarútveginn, þá skal það tekið fram að samdráttur í þorskveiðunum er mjög mikill. 307 þús. tonn veiddust árið 1991. Það er gert ráð fyrir að 185 þús. tonn veiðist á næsta ári. Smugan er meðtalin, úthafsveiðar eru meðtaldar í sambandi við þorskveiðarnar. Þetta sýnir líka hvað við hefur verið að etja. En það sem kannski skiptir mestu máli er að kanna hvernig kaupmátturinn hefur þróast.
    Á undanförnum árum hafa þjóðartekjur lækkað. Frá árinu 1992 til dagsins í dag hafa þjóðartekjur lækkað um 5%. Kaupmáttur hefur lækkað um 5%, það er enginn að fela það. Kaupmáttur hefur lækkað um 5% enda hafa þjóðartekjurnar lækkað. Á árunum 1988--1991 þegar þjóðartekjurnar lækkuðu um 4% hvað skyldi kaupmátturinn hafa minnkað þá? Um 4%, nei, um 12%. Ég endurtek: Frá árinu 1992--1994 lækkuðu þjóðartekjur um 5% og kaupmáttur launa lækkaði um 5%. Ég mótmæli því ekki að kaupmátturinn lækkaði. Á árunum 1988--1991 lækkuðu þjóðartekjur um 4% en kaupmátturinn lækkaði um 12%. Hver var fjmrh.? Hann hét Ólafur Ragnar Grímsson, núv. 8. þm. Reykn.
    Það hefur nokkuð verið rætt hér um tekjuskatta í þessari umræðu og það er ástæða til að endurtaka að þegar á allt er litið þá sýnist mér og þeim sem hafa reiknað út skattbreytingar að skattar muni á tímabili þessarar ríkisstjórnar hafa lækkað að raungildi um 1 milljarð en hækkuðu á tíma síðustu ríkisstjórnar um 10--11 milljarða, nær 11 milljörðum. 9 milljarðar má segja að hafi lent á almenningi, launþegum í landinu.
    Hv. þm. Guðrún Helgadóttir ræddi það þegar persónuafslátturinn hefði lækkað og skattleysismörkin jafnframt og virtist kenna ríkisstjórninni um. Skoðum þetta eilítið nánar. Ríkisendurskoðun gaf út skýrslu. Í skýrslunni er tekið fyrir tímabilið 1988--1994. Ef við skiljum þetta tímabil í tvennt og miðum fyrri helminginn við starfstímabil fyrri ríkisstjórnar og síðari tímann við núv. ríkisstjórn þá kemur þetta í ljós: Á föstu verðlagi hafa skattleysismörkin lækkað um rúmlega 13 þús. kr., þ.e. úr 70.281 kr., þetta er miðað við verðlag 1. júlí 1994, árið 1988 í 57.200 kr. eða um 18,6%. Fram til ársins 1991 lækkuðu skattleysismörkin um 6.702 kr., eða 9,5% af þessu, en milli áranna 1991--1994 um 6.385 eða 9,1%, minna. En bíðum aðeins við, þetta segir ekki alla söguna vegna þess að fram til ársins 1991 lækka skattleysismörkin 90% eða 9 / 10 hlutum vegna aukinnar skattheimtu ríkisins. Að 1 / 10 hluta vegna aukinnar skattheimtu sveitarfélaga. Eftir 1991

hafa skattleysismörkin lækkað um 60% eða 6 / 10 hluta vegna aukinnar skattheimtu ríkisins en 40% vegna aukinnar skattheimtu sveitarfélaga, aðallega vegna þess að aðstöðugjöldin færðust að verulegum hluta inn í útsvar. Þetta segir töluverða sögu.
    Ég held að hv. þm. stjórnarandstöðunnar, þeir sem voru í fyrrv. ríkisstjórn, ættu að huga að því þegar verið er að tala um breytingar á skattleysismörkum og persónuafslætti, hverjir stóðu fyrir þeim breytingum, því reikningurinn er auðvitað langmestur hjá fyrrv. ríkisstjórn en ekki núv. ríkisstjórn.
    En það er ekki nóg með þetta, hv. þm. Guðni Ágústsson, vegna þess að núv. ríkisstjórn greip til þess að auka kaupmátt þeirra sem verst voru settir, þeirra sem ekki borga skatta vegna þess að þeir hafa ekki nægileg laun til þess að borga skatta, með því að lækka verð á matvælum. Og hverjir stóðu gegn því aðrir en hv. þm. Framsfl.? Þessu höfðu menn skilning á í Alþb. og stóðu með ríkisstjórninni. ( JGS: Þetta er útúrsnúningur af lélegustu gerð.) Ég veit að hv. þm. Framsfl. ókyrrast mjög undir þessari umræðu, en þeir geta komið og svarað þessu í andsvari á eftir.
    Virðulegur forseti. Ég þarf ekki að hafa þessi orð fleiri. Það hafa eðlilega komið upp mörg álitamál í þessari umræðu. Það gefast næg tækifæri til þess síðar í vetur, bæði við 2. umr. og 3. umr. og eins við umræður um önnur mál, að ræða þessi mál frekar, því mörg frumvörp eiga eftir að koma í takt við það sem kemur fram í fjárlagafrv.
    Að svo mæltu vonast ég til þess að hv. þingnefnd kanni þetta mál eins og venja er til og ég megi eiga gott samstarf við hv. þm. sem í nefndinni sitja.