Fjárlög 1995

7. fundur
Miðvikudaginn 12. október 1994, kl. 16:30:53 (298)


[16:31]
     Guðmundur Bjarnason :
    Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. fjmrh. fyrir það að hafa sýnt viðleitni við að

svara hér nokkrum spurningum sem voru lagðar fyrir hann í umræðunni í gær, þó ég verði því miður að segja að ég var ekki alveg ánægður með öll hans svör.
    Fyrst nefndi hann að hv. þm. Jón Kristjánsson hefði spurt hann út í það hvort hann teldi líkur á því að fyrirtæki mundu ráða fleira fólk til starfa á næstunni og hvort það væri einhverjar slíkar vísbendingar að finna í þessu fjárlagafrv., sem reyndar er ekki að sjá í forsendum þess, sem gera ráð fyrir auknu atvinnuleysi á næsta ári eða vaxandi atvinnuleysi á næsta ári frá því sem er á þessu ári og þess vegna ljóst að það er ekki sú stefna sem boðuð er í fjárlagafrv., þó svo að hæstv. forsrh. hafi ítrekað lýst því yfir að undanförnu að kreppan væri nú blásin af. Það er svo sem ekki heldur flókið svar að segja að það megi gera ráð fyrir því að fyrirtækin byrji á því að greiða niður skuldir sínar og það held ég að við hljótum öll að vera sammála um að er líklegasta þróunin, þegar kemur að því að fyrirtækin hafi eitthvert svigrúm til þess að gera það, þegar svo hefur lagast í atvinnumálum og efnahagsmálum þessarar þjóðarinnar, að þróunin sé í þá átt. En það er því miður enn þá nokkur óvissa um endalok kreppunnar þó við vildum öll sjá betri tíð og betri fjárhags- og efnahagsstjórnun.
    Síðan ræddi hæstv. ráðherra nokkuð um vextina og þær spurningar sem þegar hafa verið bornar fram varðandi vaxtamálin. Ég ætla svo sem ekki að bæta þar miklu við eða miklu í þann sarp, það er búið að ræða töluvert um þau. Ég gerði það sjálfur í gær. Hæstv. ráðherra heldur enn að stefnan sé sú að vextir muni lækka þrátt fyrir fréttir gærdagsins og það sem er í raun að gerast í hans eigin ráðuneyti. Hefði verið fróðlegt að vita hver eru viðhorf hæstv. viðskrh., bankamálaráðherra, til útgáfu ECU-tengdu spariskírteinanna með vöxtunum upp á 8%. Ég vona sannarlega að hv. þm. Guðni Ágústsson, sem sæti á í bankaráði Búnaðarbankans, verði sannspár þegar hann talar um það að bankavextir muni lækka og ég tel að það sé svigrúm til þess, þeir ættu í raun að lækka, þó að maður sjái ekki að síðustu skref hæstv. ríkisstjórnar í vaxtamálum séu beinlínis í þá áttina. Ég hefði haft gaman af því að vita hver eru viðhorf hæstv. viðskrh. til útgáfu þessarar nýju tegundar af spariskírteinum ríkissjóðs með 8% nafnvöxtum, þó þau séu ekki sambærileg við spariskírteini ríkissjóðs sem eru verðtryggð, auk þeirra vaxta sem þau bera og þess vegna kannski ekki ljóst í augnablikinu hvaða áhrif þessi nýju bréf kunna að hafa á vaxtaþróunina.
    En ekki þykir mér ólíklegt, annað eins hefur nú gerst, eins og það að bankakerfið beri sig nú eitthvað saman við þessa vexti og segi að það sé ekki tímabært að fara út í vaxtabreytingar fyrr en ljóst sé hver áhrif þessara nýju bréfa kunni að verða. (Gripið fram í.) Ég sagði það áðan, hæstv. fjmrh., að ég vonaði að bankaráðsmaðurinn yrði sannspár, en ég hefði haft gaman af að vita hver væru viðhorf hæstv. bankamálaráðherra og viðskrh. til þessa máls og hver hann héldi að yrði þróunin og hver yrðu viðbrögð bankanna við þessari nýju spariskírteinaútgáfu, sem mér skilst að hæstv. fjmrh. hafi svarað hér áðan, ég heyrði því miður ekki það svar hans, að það væri með öllu óljóst, það væri ekkert vitað og það væri ekkert hægt að segja um það á þessu stigi. Mér finnst því að hér séu nú ekki stigin skref sem benda til vaxtalækkunar eða séu í þá veru eða til þess fallin að leiða til vaxtalækkunar.
    Þá langar mig að fara örfáum orðum um svör hæstv. ráðherra við spurningum mínum um langtímastefnumörkun í ríkisfjármálum, stefnumörkun á næstu árum og út af fyrir sig endurtaka það að ég tel að það sé skynsamlegt að setja sér einhver slík markmið og setja opinberum stofnunum og ráðuneytum ákveðin markmið hvað varðar langtímaáætlun í fjárlagagerð og auka sjálfstæði stofnana og stjórnenda þeirra. Ég er sammála því. En ég var hins vegar ekki sammála áhersluatriðum sem koma fram í því hvernig hæstv. ríkisstjórn hyggst byggja þessa langtímaáætlun upp og spurði þar einkum um forgangsröðun og aukna kostnaðarþátttöku.
    Hæstv. ráðherra svaraði því auðvitað mjög hreinskilnislega. Það á að flytja byrðarnar yfir á fólkið í auknum mæli. Forgangsröðun er auðvitað óhjákvæmileg þegar ekki er úr nægum fjármunum að spila og við getum ekki gert allt sem við gjarnan vildum gera og sjá. Það er alveg ljóst. En í hverju felst þessi forgangsröðun þegar talað er um að verja velferðarkerfið og beina fjármunum í þann farveg að þeir njóti helst sem á þurfi að halda, eins og hæstv. ráðherra orðaði það. Auðvitað geta í sjálfu sér allir sagt þetta og gefið sér það að þetta sé svona stefnumótunin, en það hefði verið æskilegt að fá það nánar skýrt og það var það sem ég vildi fá að vita, hvað er ríkisstjórnin að hugsa um, einstaka þætti, einstök efnisatriði í þessu sambandi.
    Mig minnir að hv. formaður fjárln., hv. þm. Sigbjörn Gunnarsson, hafi sagt það í gær að menn mættu vara sig á því hvert menn væru komnir í að tekjutengja alla skapaða hluti. Er það hafi sagt það í gær að menn mættu vara sig á því hvert menn væru komnir í að tekjutengja alla skapaða hluti. Er hæstv. fjmrh. að tala um að halda áfram tekjutengingunni? Hann segir að það sé til fullt af fólki í landinu sem geti borgað fyrir dvöl á sjúkrahúsum, sem geti borgað fyrir vist barna sinna í skólum og það er gott að fá það alveg hreint fram hjá hæstv. ráðherra hvort það er þetta sem hann er að leggja til. Er hann að leggja til að við tökum hér upp tvöfalt heilbrigðiskerfi, heilbrigðiskerfi fyrir þá sem geta borgað annars vegar, sjúkrahús og stofnanir fyrir þá sem geta borgað og hins vegar fyrir þá sem ekki hafa ráð eða efni á því? Er það það sem ráðherrann er að boða? Er hann að tala um það að við setjum upp tvöfalt skólakerfi, skólakerfi fyrir þá sem hafa efni á því að borga fyrir börnin sín í skólana og annað fyrir hina sem ekki hafa ráð á því? Er það slíkt þjóðfélag sem hæstv. fjmrh. er að boða og sem hann vill sjá í þessari langtímaáætlun sinni um ríkisfjármál? Það væri fróðlegt að fá alveg skýr svör við því þó kannski megi nú ofurlítið um það lesa út úr því sem hæstv. ráðherra sagði hér í svörum sínum.

    Ég var að vona það að aukin kostnaðarþátttaka ætti að vera hjá opinberum stofnunum sem e.t.v. tengjast meira atvinnulífi, að þegar atvinnuvegirnir hafa rétt úr kútnum, þegar ný ríkisstjórn hefur tekið við völdum og hér er komið betra ástand í þjóðfélaginu, þá gæti atvinnulífið tekið vissa þætti og fleiri þætti af hinu opinbera og það mætti hugsa sér þróun í þá átt, en það virðist sem sagt enn eiga að halda áfram að láta neytendur velferðarkerfisins, skólanna og sjúkrahúsanna, taka þátt í rekstrarkostnaði. Ég hef beðið um það að Ríkisendurskoðun skoðaði það eða liti á það, reyndi að gera á því úttekt hvernig þessi þróun hefur verið í tíð núv. hæstv. ríkisstjórnar, hvað það er í raun mikið sem við höfum flutt af sköttum og samneyslu yfir á herðar sjúklinga og annarra sem þurfa að sækja heilsugæslustöðvar, sjúkrahús, sérfræðiþjónustu og neyta lyfja. Sú vinna er það ég veit best í gangi hjá Ríkisendurskoðun. Ég veit að þetta er ekki auðvelt verk en það verður gengið eftir því að fá úr þessu niðurstöðu.
    Og svo aðeins að lokum, hæstv. forseti, þá nefndi ég þá hugmynd varðandi þau dæmi sem hér eru sett upp hjá hæstv. ríkisstjórn um stefnumörkun til lengri tíma, halladæmi og jafnaðardæmi, að við stefndum frekar að því að reyna að verja útgjaldahliðina eins og hún lítur núna út. Við þurfum sjálfsagt að forgangsraða þrátt fyrir það innan hennar því að það eru vissir þættir sem halda áfram að taka á sig aukin útgjöld, en við reyndum að komast hjá frekari erfiðum niðurskurði. A.m.k. tel ég að að sé alveg ljóst að frekari flatur niðurskurður verður ekki framkvæmdur þó að það örli nú reyndar aðeins á því enn hér í þessu frv. að skólum og öðrum stofnunum er ætlað að hagræða um einhverjar tilteknar upphæðir eða krónur sem er þá auðvitað í raun ekki annað en flatur niðurskurður. Og ég taldi að það ætti að nota hina hliðina, tekjuhliðina, auknar tekjur í þjóðarbúinu til þess að ná hallalausum fjárlögum. Hæstv. fjmrh. taldi það ekki duga, enda dugar það ekki með stefnu núv. hæstv. ríkisstjórnar sem hefur engan skilning á þörfum atvinnulífsins. Ef við værum að tala um það í alvöru af einhverri bjartsýni að leggja hér áherslu á bætt efnahagsástand og bætt atvinnulíf þá mundi auðvitað þróunin verða sú að gjaldahliðin gæti staðist en tekjuhliðin yrði til þess að jafna hallann.