Fjárlög 1995

7. fundur
Miðvikudaginn 12. október 1994, kl. 20:53:48 (308)



[20:53]
     Sigbjörn Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það kom skýrt fram í máli mínu í gær við þessar umræður að ég tel að hátekjuskattur skuli á lagður. Ég er hins vegar ekki endilega sannfærður um það að það skuli gert með sömu útfærslu og gert hefur verið undanfarin tvö ár. Vegna spurningar hv. þm. Jóhannesar Geirs Sigurgeirssonar hvort Alþfl. styddi ekki frv., þá styður Alþfl. að sjálfsögðu frv. Það er hins vegar ljóst og er engin nýlunda að tekjuhliðin er ekki að fullu rædd á milli stjórnarflokkanna. (Gripið fram í.) Varðandi það sem nefnt var um . . .  ( ÓRG: Nú, vantar helminginn af frumvarpinu?) Forseti, er það ég sem hef orðið hér eða hv. 8. þm. Reykn.?
    ( Forseti (SalÞ) : Forseti óskar eftir því að ræðumaður fái hljóð á meðan hann flytur sitt mál.)
    Þakka þér fyrir, forseti. Ég lýsti þeirri skoðun minni í sjónvarpi í kvöld og hef gert það hvar sem eftir því hefur verið leitað að ríkisstjórnin eigi og muni að sjálfsögðu standa við það sem um var samið þegar þessi ríkisstjórn var sett á laggir að vinna að samræmingu á skattlagningu eigna og eignatekna. Ég hef enga ástæðu til þess að draga í efa að það verði gert enda hefur svo sem verið staðið við flest það sem í þessari ágætu bók stendur.