Fjárlög 1995

7. fundur
Miðvikudaginn 12. október 1994, kl. 21:02:15 (313)


[21:02]

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Vissulega geri ég mér fulla grein fyrir því, virðulegur forseti, að bæði tekju- og gjaldahlið fjárlaga breytast í meðförum Alþingis. Það breytir ekki því að stjórnarflokkar hljóta að koma sér saman um ákveðnar grundvallarforsendur sem liggja að baki fjárlagagerðinni. Því hefur hæstv. fjmrh. lýst skýrt og skorinort að það komi ekki til greina að taka upp fjármagnstekjuskatt sem hlut í tekjuöflun fyrir næsta fjárlagaár. Ég hlýt þá að líta á það sem eina af þeim forsendum sem stjórnarflokkarnir eru búnir að koma sér saman um varðandi fjárlagagerðina. Ég skoða ummæli hv. þm. og formanns fjárln. í því ljósi. Það er mér hins vegar gjörsamlega óskiljanlegt hvernig það er hægt og virðist vera hægt að telja fjmrh. ár eftir ár trú um það að nú sé ekkert vit í því að taka upp fjármagnstekjuskatt því nú séu aðstæður svona í þessu þjóðfélagi. Síðasta ár voru þær einhvern veginn öðruvísi. Ég sé ekkert sem bendir til þess, í það minnsta að núv. ríkisstjórn hafi nokkra burði til þess að taka upp þessa skattlagningu en það að ekki er búið að taka hér upp skattlagningu á fjármagnstekjur og fjármagnseign eins og aðrar eignir og aðrar tekjur í þessu þjóðfélagi er ein af þeim þjóðarmeinsemdum sem við verðum að taka á á næstunni. Þetta er eitt af því sem þeir sem eru að borga í dag drjúga skatta á lágum tekjum horfa ekki upp á þegjandi og hljóðalaust öllu lengur.