Fjárlög 1995

7. fundur
Miðvikudaginn 12. október 1994, kl. 21:23:45 (320)


[21:23]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þetta gerist nú allt saman dálítið skemmtilegt. Hæstv. fjmrh. er alltaf að predika þá kenningu að vextir ráðist af markaðslögmálunum. Þegar hann er beðinn um að færa einhver markaðsleg eða efnahagsleg rök fyrir því að vextir eigi að lækka hér á næstu 6--9 mánuðum þá getur hann ekki nefnt nein slík efnahagsleg rök, þau eru ekki í fjárlagafrv. Fjárlagafrv. er allt í einu hætt að vera nokkur röksemdafærsla varðandi vaxtalækkun. ( Fjmrh.: Lítil lánsfjárþörf.)
Hæstv. fjmrh. fer hins vegar að tala um pólitík. Segir að það séu kosningar í Þýskalandi og kannski eftir kosningarnar á Íslandi í apríl þá geti vextir lækkað. Það er nefnilega málið, hæstv. fjmrh. Á meðan þessi ríkisstjórn er við lýði þá lækka vextirnir ekki. Markaðurinn hefur greitt atkvæði um þessa ríkisstjórn og efnahagsstefnu hennar og ætlar ekki að lækka vextina. Þar með hefur markaðurinn sjálfur, hinn harði húsbóndi, sem fjármálaráðherra er oftast að vísa til, dæmt verkin á þann veg að hann treystir ekki efnahagsstefnunni sem forsendu fyrir vaxtalækkun. Ég bað um efnahagsleg rök fyrir vaxtalækkun á næstu 6--9 mánuðum og það var athyglisvert að fjmrh. tók akkúrat þann tíma hérna áðan og vísaði til þess að það væru litlar líkur á því að það yrði vaxtalækkun á þeim tíma, en kom með pólitískar ástæður. Hver hefði trúað því að þessari fjárlagaumræðu mundi ljúka þannig að fjmrh., sem leggur fram fjárlagafrv. á þann veg sem við þekkjum hér öll, sé önnum kafinn hér á seinustu klukkustundum umræðunnar við að rökstyðja nauðsynina á vaxtahækkun?