Fjárlög 1995

7. fundur
Miðvikudaginn 12. október 1994, kl. 21:41:28 (324)


[21:41]
     Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. talar um meingallaða framkvæmd. Nú veit ég ekki hvers hann er að vitna til. Hann hefur nefnt hér fjármögnunina. Ég hef útskýrt það af hverju hún var tilkomin með þeim hætti. Við stóðum frammi fyrir því á þeim tíma þegar húsaleigubætur voru ákveðnar hvort það ætti að taka þær upp með þessum hætti, þ.e. varðandi fjármögnunina, eða hætta við þær. Þetta varð niðurstaðan. Varðandi framkvæmdina sem helst hefur verið gagnrýnd og sem ég tel alveg réttmæta gagnrýni, hún var knúin fram af Sambandi íslenskra sveitarfélaga sem var með þeim hætti að sveitarfélögin gætu sjálf valið um það hvort þau tækju upp húsaleigubætur. Ég tel það mjög alvarlegan hlut ef einhver sveitarfélög, eins og fram hefur komið, ætla ekki að taka upp húsaleigubætur vegna þess að það er verið að auka verulega aðstoð við leigjendur með þessum hætti. Það er verið að bæta raunverulega við 60% sem kemur frá ríkinu inn í þær upphæðir sem eru greiddar í aðstoð við leigjendur. Og ég tel það mjög alvarlegan hlut hjá þeim sveitarfélögum sem ekki ætla að taka upp húsaleigubætur ef þau með þeim hætti með sinni ákvörðun koma í veg fyrir aðstoð hjá sínum íbúum, íbúum sem eru kannski hvað verst staddir. Vegna þess að það er alveg óumdeilt að það er verið að bæta inn í þær fjárhæðir sem hafa farið til greiðslu húsaleigustyrkja hjá sveitarfélögum um 400 millj. kr. frá ríkinu.