Fjárlög 1995

7. fundur
Miðvikudaginn 12. október 1994, kl. 21:47:58 (327)


[21:47]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég fagna því alveg sérstaklega að Sjálfstfl. er kominn fram og hér hefur einn hv. þm. hans treyst sér til að taka þátt í þessari fjárlagaumræðu, að vísu í andsvari, en það ber að þakka. Það er viðleitni og strax í áttina að Sjálfstfl. er fundinn.
    Hv. þm., ég geta bara ekki fallist á að það sé ósanngjörn umfjöllun um málaflokk hæstv. samgrh. að lesa tölur upp úr fjárlagafrv. og bera þær saman við fjárlögin sem gilda á þessu ári. Það er það sem ég hef gert. Í mínum málflutningi hefur ekkert annað falist en það að ég hef tekið þetta fjárlagafrv., ég hef tekið fjárlögin fyrir yfirstandandi ár og borið þetta tvennt saman. Það er því miður ekki rétt, hv. þm., að framlög til framkvæmda í vegamálum hafi verið óvenjumikil undanfarin ár á þessu kjörtímabili. Það er því miður ekki rétt vegna þess að stór hluti framkvæmdanna hefur ekki verið fyrir framlög heldur lán. Á það hef ég margoft reynt að benda en talað fyrir daufum eyrum. Hv. stjórnarliðar hafa reynt að slá sig til riddara út á það að haldið hefur verið uppi þokkalegu framkvæmdastigi, það hef ég allan tímann viðurkennt. En að stórum hluta til fyrir lán.
    Það á ekki við um hafnirnar, það skal ég fúslega viðurkenna. Það er líka rétt sem hv. þm. sagði að framkvæmdir í hafnamálum voru í allþokkalegu horfi tvö sl. ár á þessu kjörtímabili en nú eru þau skorin harkalega niður og það er það eina sem ég hef sagt. Má ekki segja það? Það er greinilega mjög viðkvæmt að einfaldlega fletta þessu frv. Var ætlunin að enginn læsi þetta? Héldu menn virkilega að menn yrðu svo hógværir í umfjöllun sinni um stöðu mála að þeir læsu ekki einu sinni upp úr fjárlagafrv. Hvað þá bera það saman við fjárlögin í ár?
    Nei, staðreyndin er sú, hv. þm., og það á eftir að koma í ljós, því miður, að þegar það verður lagt saman hvað hefur verið til framkvæmda í vegamálum á þessu kjörtímabili fyrir eigið aflafé Vegagerðarinnar, þá er það því miður ekki mikið. Það er lítið og framkvæmdastiginu hefur að allt of miklu leyti verið haldið uppi með lántökum og nú er að koma að skuldadögunum eins og kunnugt er.