Fjárlög 1995

7. fundur
Miðvikudaginn 12. október 1994, kl. 22:06:12 (332)


[22:06]
     Jón Helgason (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég vil mótmæla því að réttur falli niður þó að skorti upp á og jafnvel engin króna sé á fjárlagafrv. hvers árs vegna þess að það er ekki bundinn gjalddagi, þ.e. ekki skyldugreiðslugjalddagi í jarðræktarlögunum, aðeins ákvæði um það að greiðslurnar séu þá verðbættar ef greiðsla dregst.
    Ég gleymdi einmitt að minnast á það sem hæstv. ráðherra gerði, kröfur um heilbrigðiseftirlit eða hollustu, að það sem hefur verið einna tilfinnanlegast í sambandi við þennan niðurskurð er það að vegna þess að kröfur voru hertar með reglugerð frá ríkisvaldinu þá neyddust margir bændur til að ráðast í mjög dýrar framkvæmdir. Þannig að það er beinlínis vegna nýrra krafna af hálfu ríkisvaldsins sem bændur urðu að ráðast í þessar framkvæmdir, stofna til þessara útgjalda, sem þeir reiknuðu með og treystu á að lagaákvæðin giltu um og því er það að sjálfsögðu enn þá tilfinnanlegra að svona skuli til takast.