Fjárlög 1995

7. fundur
Miðvikudaginn 12. október 1994, kl. 22:08:52 (334)


[22:08]
     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Ég skal ekki lengja þessa umræðu mjög því ég þarf ekki að bæta mörgu við þá ræðu sem ég flutti í dag. Þó vil ég aðeins ræða við hæstv. fjmrh. um vexti á nýjan leik. Hann hefur reynt að nota orð mín frá því í dag um að vextir muni lækka. Ég fór vissulega yfir það í ræðu minni að allar aðstæður í bankakerfinu bentu til þess að þar væri nú svigrúm og möguleikar til þess að lækka vexti en hins vegar nefndi ég það að önnur atriði í þjóðfélaginu ráða því kannski að það verður ekki gert. Nú mun það vera svo að 20 milljarðar eru til í bankakerfinu í lausu fé sem er óvenjumikið. Við höfum séð það að bankastofnanir, peningastofnanir, hafa auglýst eftir lántakendum. Ég hygg að það hafi ekki gerst kannski fyrr í Íslandssögunni að peningastofnanir hafa orðið auglýsa í blöðum eftir traustum og góðum lántakendum en þetta gerðist í sumar. Þetta segir okkur það að eftirspurnin eftir lánsfé er ekki veruleg. Það stafar af því að þessi ríkisstjórn hefur auðvitað drepið þrótt þessa þjóðfélags með þeim hætti að það er ekkert nýtt að gerast á neinum stað. Það er engin athafnasemi, það er ekki verið að byggja upp neitt nýtt. Menn eru hrekktir af því að vera í atvinnulífinu og kannski margir kraftmestu menn sem hafa verið þar á síðustu árum orðnir gjaldþrota eftir þá efnahagsstefnu sem núv. ríkisstjórn hefur gert.
    Ég gat þess líka að bankarnir teldu flestir að þeir væru komnir fyrir vind, sem kallað er, í að leggja á afskriftasjóði. Þeir hefðu lagt það mikið í afskriftasjóði á síðustu árum að þeir ættu á móti töpum og framlög í afskriftasjóði yrðu á næsta ári í bankakerfinu með eðlilegum hætti. Þannig að aðstæðurnar eru allar fyrir hendi í bankakerfinu til þess að lækka vexti en það er einn þröskuldur í veginum fyrir því að þetta gerist eða kannski tveir. Hæstv. fjmrh. er hallakóngur, hallarekstrarmeistari þessarar aldar. Hann er búinn að sitja í fjögur ár og er stoltur af því, hann hefur rekið ríkissjóð með halla upp á 35 milljarða kr. Hæstv. fjmrh. ræður ekki við rekstur ríkissjóðs og spyr eftir peningum endalaust og kannski hér í gær kjaftaði hann vextina upp með gáleysislegu tali. En hér hafa menn farið yfir t.d. ný tilboð sem komu frá Lánasýslu ríkissins, á ECU-tengdum spariskírteinum, verðtryggðum spariskírteinum, sem fram fór í dag. Ég hef að vísu ekki heyrt hvaða viðbrögð urðu á lánamarkaðnum. Hæstv. fjmrh. veit um það og segir frá því á eftir. En það er almennt talið að þetta tilboð muni valda því að vextir hækki. Hér er verið að bjóða upp á vexti upp á 8%.
    Ég geri mér grein fyrir því að hér er ekki um verðtryggða pappíra að ræða og kannski mun þetta ekki valda neinni vaxtasprengju en þetta mun þó hafa þau áhrif að það kemur ný hreyfing af völdum hæstv. fjmrh. sem fremur mun toga vextina upp ef eitthvað verður.
    Hitt atriðið er það að lífeyrissjóðirnir og stóreignamennirnir sem hafa verið á fóðrum hjá hæstv. fjmrh. hafa neitað að kaupa af ríkissjóði á þeim 5% sem hæstv. ráðherra hefur boðið og eru um þessar mundir, eins og ég gat um í minni fyrri ræðu, að leita mjög á sterk fyrirtæki og sveitarfélög að lána þangað sína peninga á mun hærri vöxtum en ríkið býður. Svo kemur eitt atriði enn sem auðvitað blasir við að upp úr áramótum þá búum við í opnu umhverfi hvað þetta varðar, þá verða það auðvitað erlendir markaðir sem ráða miklu meira um vexti hér á landi en áður var. Ég hygg að það sé rétt hjá hæstv. fjmrh. að um þessar mundir eru vextir lægri en í mörgum samkeppnislöndum okkar. Staðan er sú.

    Svo er auðvitað hitt sem blasir við í bankakerfinu að eftir þau gífurlegu töp sem sumir bankanna hafa orðið fyrir þá hygg ég að þeir vilji næstu missiri reka sig með talsverðum gróða. Ég get nefnt Búnaðarbankann. Til þess að viðhalda sínu eigin fé þá þarf hann líklega að hafa í hagnað eftir skatta svona 360--370 millj. á ári. Ég hygg að einkabankinn, Íslandsbanki, til þess að viðhalda sínu eigin fé upp á 5,7 milljarða, hann þurfi að græða eftir skatta 570 millj. á ári.
    Þannig að auðvitað er það mjög mikilvægt að reka hér sterkar bankastofnanir og það þekkir hæstv. fjmrh. best því við þekkjum það úr nágrannalöndum að þar hefur orðið að draga einkabanka og ríkisbanka upp eftir að þeir hafa farið á höfuðið og verja sparifé almennings í þeim löndum og ríkið hefur orðið að leggja til framlög og hér hefur það auðvitað gerst í tíð núv. ríkisstjórnar að það hefur orðið að láta banka í té milljarða til þess að styrkja stöðu hans. Þannig að það er ekkert æskileg staða.
    En sem sé, niðurstaðan er þessi, hæstv. fjmrh., að aðstæðurnar eru fyrir hendi í bankakerfinu nú til þess að lækka vexti, því er ekkert að leyna, en það er ríkissjóður, hallarekstur ríkissjóðs, og auðvitað eins og ég gat um barátta lífeyrissjóðanna fyrir því að verja sitt fé og fá sem hæsta vexti sem valda því að bankarnir munu eiga erfitt með að ráða við þetta. Þeir verða að halda uppi á sparifé svipuðum vöxtum eins og fjmrh. býður á hverjum tíma. Þannig að hæstv. fjmrh. er þröskuldur í vegi þessarar þróunar sem væri mjög mikilvæg.
    Ég hef verið hissa í þessari umræðu hvað hæstv. fjmrh. hefur verið stoltur af aðgerðum sínum, maður sem hét því í upphafi ferils síns að ríkissjóður skyldi að tveimur árum loknum vera rekinn hallalaus. En ætlar þrátt fyrir það líklega að tapa einum 20 milljörðum á tveimur síðustu árum sínum sem þýðir hærri skatta á unga fólkið sem er að koma út á vinnumarkaðinn og komandi kynslóðir.
    En það sem stendur nú upp úr eftir þessa umræðu er staða þessa blessaða frv. sem auðvitað virðist auðvitað ekki vera traust og muni hafa heilmiklar ófyrirséðar afleiðingar í þessu þjóðfélagi. Það er ljóst að frv. er sett fram til þess að tryggja atvinnuleysið í sessi, það eru skornar niður framkvæmdir upp á 3,3 milljarða og við vitum að Sjálfstfl. krefst þess jafnan að hafa hóflegt atvinnuleysi til þess að halda verkalýðshreyfingunni niðri. Það hefur komið fram í umræðunni að menn ætla ekki að láta bætta stöðu fyrirtækjanna eða hluta af þeirri bættu stöðu fara til fólksins í landinu. (Forseti hringir.)
    Hæstv. forseti. Svo er hitt auðvitað meginmálið að hér stendur til að fella niður hátekjuskatt og eignarskatt á stóreignamenn upp á 1,1 milljarð meðan það á að leggja á öryrkja, gamalt fólk og sjúklinga heilan milljarð eða skerða bætur til þessa fólks um heilan milljarð. (Forseti hringir.) Þetta er sú jafnaðarstefna sem blasir við eftir þessa umræðu.