Uppsögn pistlahöfundar við Ríkisútvarpið

8. fundur
Fimmtudaginn 13. október 1994, kl. 10:35:47 (340)


[10:35]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Þannig háttar til að núna í morgun spurðist það að einn af föstum pistlahöfundum Ríkisútvarpsins, Illugi Jökulsson, hefði fengið pokann sinn og honum hefði verið vikið frá störfum þar sem pistlar hans væru of pólitískir eins og það var kallað og yfirmaður hans nennti ekki lengur að sitja undir kvörtunum valdhafandi manna vegna þess að stofnunin væri með of pólitíska menn á sínum vegum.

    Það er orðið mjög alvarlegt mál hvernig Sjálfstfl. leggur Ríkisútvarpið í einelti. Í því sambandi er skemmst að minnast þess þegar Kjartan Gunnarsson, framkvæmdastjóri Sjálfstfl., kvartaði sérstaklega undan pistlum Illuga Jökulssonar fyrir nokkrum mánuðum og má kannski líka rifja upp það mál sem snertir Hrafn nokkurn Gunnlaugsson og ítarlega var rætt hér á sínum tíma.
    Ég tek þetta mál upp, hæstv. forseti, undir þessum dagskrárlið, störf þingsins, vegna þess að ég vil boða að fara þurfi fram umræða um stöðu Ríkisútvarpsins andspænis Sjálfstfl. sérstaklega um þessar mundir og á síðustu missirum. Það er óþolandi fyrir Ríkisútvarpið og samkeppnisstöðu þess og möguleika til að gegna skyldum sínum að stofnunin sé lögð í pólitískt einelti af stærsta stjórnmálaflokki landsins, flokki menntmrh. í þokkabót. Þess vegna boða ég að ég mun kalla eftir því að umræða fari fram um þessi mál innan eða utan dagskrár við fyrsta hentugt tækifæri.