Lyfjalög

8. fundur
Fimmtudaginn 13. október 1994, kl. 11:01:32 (347)


[11:01]
     Guðrún J. Halldórsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég tel að þetta frv. til laga um breytingu á lyfjalögunum sé þarft frv. og styð það og styð að því verði vísað til heilbr.- og trn. þar sem má athuga hvort eitthvað í því mætti betur fara, t.d. ákvæði um það hvaða dýralæknir megi selja lyf. En ég gat ekki í vor þegar þetta mál kom til heilbr.- og trn. og get ekki enn þá skilið gagnsemina í þeim breytingum sem voru í því lagafrv. Ríkið græðir ekki á því, bændur græða ekki á því og því síður náttúrlega dýralæknar. Þetta er engum til ágóða nema kannski apótekurum sem ég er þó ekkert viss um. Ég held að þetta frv. eigi mjög mikinn rétt á sér og að ákvæðið um sölu á lyfjum til dýralækninga hafi verið stórkostlegur galli á frv. sem fram kom í vor.
    Þetta hefur engum verið til góðs og það þarf að breyta þessu og því fagna ég því að þessi tillaga hefur komið fram.