Lyfjalög

8. fundur
Fimmtudaginn 13. október 1994, kl. 11:13:02 (351)


[11:13]
     Flm. (Ingibjörg Pálmadóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka þá ágætu umræðu sem hefur orðið um þetta mál og þær upplýsingar sem hafa komið fram. Hér tjáði 1. þm. Vesturl. okkur að hæstv. heilbrrh. ætli að beita sér fyrir breytingu á þeim lögum sem voru samþykkt í vor. Við sem beittum okkur gegn þeim lögum fögnum þeim sinnaskiptum og að menn hafi vaknað til vitundar um að verið var að gera hlut sem átti eftir að koma illa niður við marga. Það er því mjög ánægjulegt að heyra að menn hafa loksins vaknað til vitundar þó seint væri um að lögin, sem voru samþykkt, eru óframkvæmanleg. Ég tek undir með þeim sem segja að rétt sé að taka þennan afmarkaða þátt út úr og geyma heildarendurskoðun þar til síðar því að það liggur á að afgreiða þetta mál.

    Mig langar aðeins að leiðrétta hv. 1. þm. Vesturl. sem hélt áðan ræðu og sagði það að verið væri að opna fyrir það að allir dýralæknar gætu selt lyf, jafnvel dýralæknar sem sætu á Alþingi og m.a. heilbrigðisfulltrúar. Þetta er náttúrlega útúrsnúningur því að í gömlu lögunum máttu aðeins héraðsdýralæknar kaupa og selja lyf. Í nýju lögunum geta bæði héraðsdýralæknar og starfandi dýralæknar keypt og selt lyf. En sá böggull fylgir skammrifi að leyfi fyrir þeim lyfjum sem dýralæknar selja er aðeins bundið við bráðalyf. Þetta er því aðeins eins og hver annar útúrsnúningur og allt í lagi með það en það er líka hægt að bæta þarna einu orði við þannig að hv. þm. verði ánægður með þetta frv. Það er mikið atriði að ná breiðu samkomulagi um málið.
    Ég ætla ekki að hafa mjög mörg orðum þetta í bili en ég tel rétt þar sem hæstv. heilbr.- og trmrh. verður hér í dag að við fáum úr því skorið nákvæmlega hvernig hann hyggst breyta þessum lögum. Eftir það getum við farið á fullu í það að sameinast um það að hraða málinu. En þær upplýsingar, sem komu fram um það að ráðherra sé tilbúinn til þess eru ágætar en það er rétt sem kom fram hjá hv. þm. Jóni Helgasyni að ef það er breitt samkomulag meðal þingmanna sjálfra þarf eflaust ekkert að bíða eftir honum. En þar sem hann verður við í dag þá er rétt að heyra hvað hann segir um þetta mál.
    ( Forseti (VS) : Forseti skilur hv. þm. þannig að hún sé að óska eftir því að umræðunni verði frestað.)