Tekjuskattur og eignarskattur

8. fundur
Fimmtudaginn 13. október 1994, kl. 11:25:16 (355)


[11:25]
     Flm. (Tómas Ingi Olrich) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 75/1981, með síðari breytingum. Frv. þetta er 19. mál þingsins og meðflm. með mér að þessu frv. er hv. þm. Sturla Böðvarsson.
    Frv. þetta er í tveimur greinum og er meginefni þess að kostnaður við endurbætur og viðhald á eigin húsnæði sé frádráttarbær enda nemi þessi kostnaður að lágmarki 100 þús. kr. og skal endurgreiðslan vera 10% af þeim kostnaði sem ráðist hefur verið í. Greinargerð fylgir þessu frv. þar sem er farið nokkuð ítarlega í ástæðurnar fyrir því að það er lagt fram. Eins og fram kemur í greinargerðinni er þjóðarauður Íslendinga að langmestu leyti bundinn í íbúðar- og atvinnuhúsnæði. Íbúðarhúsnæði og atvinnuhúsnæði í heild er metið á um 1.200 milljarða kr.
    Ef við berum okkur saman við aðrar þjóðir eru þessar eignir hér á Íslandi til þess að gera ungar. Mikið byggingarskeið hófst á Íslandi eftir síðari heimsstyrjöldina og hefur húsakosti landsmanna að miklu leyti verið komið upp á þessum tíma. Við höfum því litla hefð í viðhaldsverkefnum og það hefur komið í ljós að samfara því að viðhaldsþörf þessa húsnæðis hefur farið stórvaxandi þá hefur viðhaldsverkefninu ekki verið sinnt sem skyldi. Þetta á bæði við um einstaklinga og opinbera aðila. Á sama tíma og við sjáum að þarna er verkefni sem er vanrækt og snertir þjóðarauð Íslendinga, verulegan hluta af honum, þá gætir atvinnuleysis í byggingariðnaði og fyrirtæki í þessari atvinnugrein eiga reyndar í harðri samkeppni við atvinnustarfsemi á svörtum markaði. Til þess að varpa ljósi á það hversu viðhaldsverkefnin hafa vaxið mikið er hægt að líta hér í fréttaauka samtaka iðnaðarins um byggingariðnaðinn en þar segir, með

leyfi hæstv. forseta:
    ,,Helstu verkefni byggingariðnaðarins hafa verið nú á síðari árum viðhaldsverkefni og kemur fram hér í súluriti að á milli áranna 1992 og 1993 hafa viðhaldsverkefni byggingariðnaðarins aukist mjög verulega.``
    Þessi þáttur í byggingarstarfseminni er einmitt sá þáttur sem er viðkvæmastur fyrir skattskilum og ríkissjóður hefur beðið verulegt tjón af því að þessi starfsemi hefur ekki verið gefin upp til skatts eins og lög standa til. Raunar má segja að ríkissjóður beri af þessu tvöfalt tjón því að annars vegar er um að ræða tapaðar tekjur af atvinnustarfseminni en hins vegar koma fram útgjaldaliðir hjá ríkissjóði vegna aukinna atvinnuleysisbóta. Það er m.a. tilgangur þessa frv. að stuðla að auknum viðhaldsverkefnum hjá byggingariðnaðinum og bæta skattskil af byggingarstarfinu. Ef viðhald húsa í einkaeign hér væri með eðlilegum hætti þá má ætla að byggingariðnaðurinn og þjónustustarfsemin við byggingariðnaðinn velti á annan tug milljarða kr. Það er að sjálfsögðu erfitt að meta þetta nákvæmlega en í samanburði við önnur lönd --- og ég hef reyndar farið þá leið að draga heldur úr kostnaðinum sem þarna gæti verið eðlilegur á ári vegna þess að húsnæði hér á Íslandi er þó allnýlegt --- þá má gera ráð fyrir því að verkefnið sé hér árlega á annan tug milljarða kr. ef því væri sinnt svo sem vera ber. Það er því ljóst í þessu máli að það er um að ræða mikil verkefni ef í þau er ráðist en jafnframt er mikil áhætta tekin fyrir þjóðina ef þessu verkefni er ekki sinnt.
    Þetta mál sem hér er lagt fram varðar afslátt af sköttum vegna viðhaldsverkefna og er um þann hluta byggingariðnaðarins að ræða sem talið er að skili sér einna verst í framtöldum tekjum. Það má reikna með því að af hverri milljón króna sem varið er til viðhaldsvinnu fari til ríkissjóðs sem skatttekjur um 250 þús. kr. miðað við að sá afsláttur sem hér er verið að tala um geti numið um 100 þús. kr. á milljón mundi ríkissjóður ekki skaðast af slíku máli þegar á heildina er litið ef tilhögunin leiðir til betri skattskila.
    Ég vil taka það fram að þetta mál var lagt fram á 117. löggjafarþingi en hlaut þá ekki afgreiðslu. Málið er nú endurflutt óbreytt. Þess ber að geta að þessu máli var vísað til umsagnar og eru umsagnir um það undantekningarlaust mjög jákvæðar.
    Ég legg til að að lokinni 1. umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.