Lánsfjáraukalög 1994

8. fundur
Fimmtudaginn 13. október 1994, kl. 12:01:37 (364)

[12:01]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til lánsfjáraukalaga fyrir árið 1994. Þetta frv. er í tveimur greinum. Í fyrri grein frv. er gert ráð fyrir því að breyting verði á lántökuheimildum ríkissjóðs. Þetta er gert til þess að mæta þeim breytingum sem eru fyrirsjáanlegar á afkomu ríkissjóðs og má vitna þar til athugasemda við lagafrv. um lántökur ríkissjóðs.
    Fjáraukalagafrv. er fram komið en þess skal getið að ríkisstjórnin hefur heimildir til lántöku umfram það sem kemur fram í lánsfjárlögum yfirstandandi árs. Það skal tekið fram að ég hef ákveðið að nýta heimild í 5. gr. laganna nr. 43/1990, um Lánasýslu ríkisins, og endurlána Húsnæðisstofnun ríkisins allt að 7 milljarða kr. þar sem útboð húsnæðisbréfa hafa ekki gengið eftir sem kunnugt er.
    Í 2. gr. er lagt til að gerð verði breyting á lánsfjárlögum yfirstandandi árs þannig að í stað 11,5 milljarða komi 15,2 milljarðar í 4. tölulið 4. gr. en þar er fjallað um lántöku húsbréfadeildar en eins og kunnugt er er ríkisábyrgð á þeim lánum.
    Ég ætla ekki í upphafsræðu minni við 1. umr. málsins að fjölyrða um málið, það er flestöllum hv. þm. kunnugt. Ég tek það fram að það var ljóst í vor og reyndar fyrr að bæta yrði við fjármunum í húsbréfaútgáfuna. Það er ekki hægt nema til komi heimild frá Alþingi því að enn sem komið er hvílir þetta kerfi á ríkisábyrgðum.
    Það stóð til og var ákveðið 4. maí í vor að breyta greiðslumati og var áætlað að það yrði gert fyrir 15. júní. Hins vegar dróst það nokkuð og var gert í tveimur áföngum, annars vegar seint í september og hins vegar nú í þessum mánuði.
    Jafnframt var ákveðið og hefur þegar verið gefin út reglugerð þar að lútandi af hálfu félmrh. að ábyrgðargjald yrði hækkað úr 0,25% í 0,35% enda reynist það nauðsynlegt þar sem töpuð útlán virðast vera meiri í kerfinu en gert var ráð fyrir í upphafi.

    Ég hef átt viðræður við formann hv. efh.- og viðskn., hv. 6. þm. Norðurl. e., Jóhannes Geir Sigurgeirsson, og mér er kunnugt um að hv. nefnd ræddi þetta mál í morgun og það er fullur áhugi á því á hv. Alþingi að flýta fyrir því að þetta frv. geti orðið að lögum enda er það brýn nauðsyn að hægt sé að gefa út bréf þar sem biðröð hefur myndast í kerfinu. Ég er þess vegna þakklátur hv. þm. fyrir að hafa veitt brautargengi afbrigðum og á von á því að 1. umr. geti klárast hér í dag. Ég hefði sjálfur kosið að hægt hefði verið að gera þetta frv. að lögum í dag en það er náttúrlega mjög óvenjulegt ef það hefði tekist. En ég veit að hv. nefnd hyggst ræða málið aftur á mánudagsmorgni þannig að það ætti að vera hægt að ljúka málinu á mánudegi með því að frv. verði þá að lögum.
    Í þessari ræðu tel ég ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta mál en ég bendi á að í athugasemdum með fjárlagafrv. á bls. 368 er vikið að húsbréfakerfinu og þar er skýrt mjög nákvæmlega hvernig vanskil hafa aukist í kerfinu allt frá árinu 1990 þegar kerfið var tekið upp og hvernig hugmyndir hafa verið um að bregðast við því.
    Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu á þessari stundu til að fara fleiri orðum um frv. en legg áherslu á að hv. þm. virði þau tilmæli mín að hægt verði að ljúka málinu á sem allra stystum tíma. Ég legg til að í lok fyrstu umræðu verði samþykkt að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.