Lánsfjáraukalög 1994

8. fundur
Fimmtudaginn 13. október 1994, kl. 12:07:11 (365)

[12:07]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegur forseti. Það er alveg rétt sem kom fram í framsöguræðu hæstv. fjmrh. að ráðherrann leitaði til mín í gær og leitaði eftir því að nefndin tæki þetta mál fyrir á reglulegum fundi sínum í morgun. Ég leitaði þá þegar eftir því við nefndarmenn og því var vel tekið sem gerði það að verkum að nefndin hóf umfjöllun sína um þetta mál í morgun og fékk til fulltrúa bæði frá félmrn. og fjmrn.
    Ég held að mér sé alveg óhætt að segja það hér fyrir hönd nefndarinnar að þar er fullur vilji á að afgreiða málið hratt frá þinginu. Við skiljum mjög vel þá þörf sem er á því að afgreiða nýjan lánaflokk húsbréfa þar sem húsbréfin eru orðin það áhrifamikill aðili á fasteignamarkaðnum og í raun stendur fasteignamarkaðurinn hvað snertir fjárfestingar einstaklinga orðið alfarið og fellur með húsbréfunum. Hvort sem það er nú hinn eðlilegi kostur og æskilegi ætla ég ekki að leggja mat á hér. Ég tel að það sé vilji nefndarinnar að afgreiða þetta fljótt. Það eru hins vegar þar eflaust skiptar skoðanir um þær hliðarráðstafanir sem eru gerðar samhliða útgáfu þessa nýja flokks húsbréfa. En ég tel að það muni ekki koma niður á afgreiðslu nefndarinnar og það hefur nú þegar verið boðaður fundur kl. 11 á mánudagsmorgun m.a. vegna þess að nefndarmenn vildu fá tækifæri til að ræða bæði við forsvarsmenn Húsnæðismálastofnunar og sömuleiðis að ræða við Seðlabankann um stöðu húsbréfanna og fjármögnun húsnæðiskerfisins inn á lánamarkaðinn.
    Það sem kannski orkar mest tvímælis í kringum þessar breytingar allar er að hækka ábyrgðargjaldið um 0,1% og þar með hækka vexti af húsbréfunum sem því nemur. Þetta stingur svolítið í stúf við aðrar yfirlýsingar núv. hæstv. ríkisstjórnar þess efnis að hér megi helst ekkert gera sem geti raskað fjármálamarkaðnum og orðið til vaxtahækkunar. Það eru m.a. rökin fyrir því að hér megi ekki skattleggja á eðlilegan hátt fjármagnseign og fjármagnstekjur. En það virðist hins vegar vera allt í lagi þegar að því kemur að leggja auknar byrðar á þá sem þurfa að greiða vextina, í þessu tilfelli þá sem taka húsbréfin. Við þurfum að fara betur ofan í það í nefndinni hvaða röksemdir liggja þarna að baki.
    Það er alveg rétt sem kom fram hjá hæstv. ráðherra að vanskil eru orðin ískyggileg. Það kann hins vegar að orka tvímælis að viðbrögðin við auknum vanskilum verði að hækka vextina. Þess vegna held ég að það verði að skoða mjög rækilega hvað veldur þessum auknu vanskilum og bregðast við, taka á rótum vandans í stað þess að hækka vexti til að byggja upp afskriftasjóð. Ég viðurkenni að vísu að það er langtímaverkefni og eitt af því sem verður að taka á í öllu húsnæðiskerfinu að Húsnæðisstofnun nái að byggja upp afskriftasjóð sem geti tekið á sig tímabundnar sveiflur. En það er vandséð að það sé einmitt tími núna þegar fjármagnsmarkaðurinn er eins viðkvæmur og hæstv. fjmrh. hefur lýst yfir með sínu fjárlagafrv. að þar megi ekkert gera varðandi skattlagningu sem geti valdið vaxtahækkun.
    Við fengum í hendur áðan töflu um vanskil í húsnæðiskerfinu. Hún er meðal þeirra gagna sem við óskuðum eftir að fá. Ég er hér með, virðulegur forseti, töflu yfir vanskil. Fyrsta dagsetningin er frá 15 mars 1990. Taflan nær yfir vanskil eftir 30 daga, 60 daga, 90 daga og lengur. Ég tel reyndar að sú tala í þessu sem er marktækust sé vanskil í 90 dagar og lengur. Ég geri ekkert of mikið með 30 daga vanskilin. Þó er það út af fyrir sig hættumerki eins og kom fram hjá fulltrúum ráðuneytanna í morgun að þessi skafl, 30--60 daga vanskila, er stöðugt að aukast. En 30 daga vanskilin mundu nú kannski flokkast undir það sem bankamenn kalla góða vanskilamenn, sem greiða alltaf en aldrei á réttum gjalddaga og skila þess vegna svona eilitlu af dráttarvöxtum inn í púlíuna í leiðinni. Þetta ku vera bestu viðskiptamenn bankastofnana og fjármálastofnana. En 90 daga vanskilin hafa þróast þannig, með leyfi forseta, ef ég tek hér nokkrar tölur. 15. des. 1990 voru þau 9,9%, 15. des. 1991 eru þau komin upp í 12,3%, 15. des. 1992 upp í 17,3% og 15. des. 1993 upp í 24,4%, þ.e. tæplega 25%. Það er þessi breyting á síðasta ári sem mér finnst alvarlegust. Það er kannski ekki óeðlilegt að þarna verði í prósentuvís nokkuð hröð aukning á meðan kerfið er ungt og er að byggjast upp en það eðlilega hefði verið að sú kúrfa hefði síðan lækkað eftir því sem lengra leið. Þarna er um að ræða atriði sem verður að taka á.

    Það er náttúrlega kunnugt og hefur verið í fréttum að þetta ástand, sem nú er að húsbréf eru uppurin, hefur gert það að verkum að það er nánast ófremdarástand á fasteignamarkaðnum og það hefur smitað út frá sér ótrúlega hratt þegar þessi stífla myndast. Það er út af fyrir sig áhyggjuefni að það er skoðun fasteignasala að það verði komin upp svipuð staða aftur í byrjun desember þrátt fyrir þær ráðstafanir sem hér er verið að grípa til og það verður gaman að heyra skoðun hæstv. fjmrh. á þessu.
    En almennt vil ég segja það um þetta mál og það sem kom fram á fundi nefndarinnar að uppbygging húsnæðiskerfisins á grunni markaðspappíra, þ.e. bréfa sem ganga kaupum og sölum, virðist þurfa miklu lengri tíma til að byggjast upp og ná stöðugleika en þau fáu ár sem eru frá því að húsbréfakerfið var tekið upp. Það verður því miður að segjast að þær væntingar sem voru gerðar til þessa kerfis hafa ekki staðist nema að hluta til. Þegar var verið að selja okkur stjórnmálamönnum þetta kerfi á þeim tíma þá átti það nánast að lifa sínu sjálfstæða lífi og stabílera sig innan frá, þ.e. sjálft, varðandi framboð og eftirspurn. Það kom hins vegar mjög fljótt í ljós að eftirspurnin var það mikil að afföllin fóru langt fram úr öllu velsæmi. En þrátt fyrir það var kerfið keyrt áfram á þeim forsendum árum saman. Það var ekki fyrr en hægt var að telja hæstv. núv. ríkisstjórn á að það yrði að beita handafli við að lækka vextina að ávöxtunarkrafan lækkaði á síðasta ári. Þá hins vegar kemur í ljós eins og menn máttu vita að þar með rauk eftirspurnin upp um leið. Þannig að að mínu mati er langur vegur í það að þetta kerfi sé búið að ná þeim stöðugleika sem það þarf að ná. Og í raun get ég sagt það sem mína skoðun að ef okkur tekst að ná einhverjum stöðugleika í þessu kerfi þá væri mjög æskilegt að losna við ríkisábyrgðina á því. Það er ekkert eðlilegt að mínu mati við það að mikill meiri hluti allra fasteignaviðskipta í landinu fari fram á ríkisábyrgð. Það ber að mínu mati að nota fyrsta tækifæri til að vinda ofan af því.
    Þá endurspeglar framlagning þessa máls það sem hefur verið ljóst síðustu mánuði að það hefur ekki tekist að selja húsnæðisbréfin sem áttu að fjármagna hið almenna byggingarkerfi og ég hlýt að spyrja hæstv. fjmrh. hvort menn hafi ekki getað séð þetta fyrir þegar ákveðið var að hætta að semja við lífeyrissjóðina um þessa fjármögnun. Mér skildist á fulltrúum ráðuneytanna í morgun að ástæðan fyrir því að þessi bréf hafa ekki selst sé að lífeyrissjóðirnir hafa ekki treyst sér til að kaupa þau. Þarna eru náttúrlega farnir að stangast á að mínu mati hagsmunir sömu aðila. Því vissulega eru það í flestum tilvikum svo að þeir sem eiga undir það að sækja að fá lán úr hinu almenna kerfi til húsnæðiskaupa eru nánast í öllum tivikum í þeim hóp sem á hagsmuna að gæta varðandi lífeyri og eftirlaun gagnvart því hvernig tekst að fjármagna lífeyrissjóðina. Þarna er því um að ræða að það eru sömu aðilar að hluta til að því manni finnst beggja megin við borðið eða ættu að hafa hagsmuni beggja aðila í huga.
    Virðulegur forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta mál hér. Það er að mínu mati almennur vilji fyrir því á Alþingi að það þurfi að afgreiða það fljótt þó svo að við höfum ekki treyst okkur til þess að standa fyrir afgreiðslu samdægurs ýmissa hluta vegna. Við töldum okkur þurfa að fá annan fund til að fara yfir málin auk þess sem það er út af fyrir sig ekkert góður blær á því að Alþingi sé að afgreiða mál samdægurs og þau eru lögð fram. ( Gripið fram í: Eftir pöntun.) Eftir pöntun, er hér sagt framan úr sal. Já, eftir pöntun eða út úr neyð. Það er nú einu sinni svo að það er kominn 13. okt. þannig að ríkisstjórnin hefur í sjálfu sér haft hér æðimarga daga til að koma þessu máli fram á Alþingi. Það lá alveg ljóst fyrir áður en þing kom saman að þetta mál yrði að fá afgreiðslu strax á fyrstu dögum. Ég held að það sé þá ekki óeðlilegt að Alþingi sem slíkt taki sér eina helgi og tvo fundi til að fara yfir málið. Við erum oft gagnrýnd fyrir að afgreiða mál án þess að fara nægilega ofan í saumana á þeim. Við vorum einmitt að ræða eitt slíkt mál í morgun sem er lyfjalagaafgreiðslan frá síðasta vori.