Lánsfjáraukalög 1994

8. fundur
Fimmtudaginn 13. október 1994, kl. 12:27:35 (368)


[12:27]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna það að mér gengur ákaflega erfiðlega að skýra út fyrir mörgum hv. framsóknarmönnum markaðslögmálin og vextina. Þegar ég sagði: Við lækkuðum vextina fyrir ári síðan, var ég ekki að tala um markaðsvextina. Ég var að tala um nafnvextina á bréfunum. Fyrrv. félmrh. lækkaði nafnvextina, sem eru skráðir í bréfin, um 1%. Það gerist bara með stjórnarathöfn. Það hefur ekkert með ávöxtunarkröfuna að gera. Það hefur eingöngu með það að gera hvað skuldarinn greiðir Húsnæðisstofnuninni, en það hefur ekkert með það að gera hvað fæst fyrir bréfið á hinum almenna markaði. Á almenna markaðnum gerðist það fyrir þennan tíma að ávöxtunarkrafan lækkaði úr um það bil 8 og niður í 5%. Það er markaðurinn, hitt eru nafnvextir bréfanna og á þessum gerum við að sjálfsögðu mikinn mun.
    Varðandi síðan ábyrgðir á þessu kerfi og yfirfærslu í nýtt kerfi, þá er ég sammála hv. þm. að það gerist líkast til helst þannig að ríkið verði þátttakandi í stofnun húsbréfabanka ásamt lánastofnunum sem vildu koma að því máli. Ágóðinn fyrir ríkið er þá að ríkið getur tekið þessa hluti út úr sínum reikningum, haft það sérsjóða og losnað þannig við að sýna þessar gífurlegu ábyrgðir sem hlaðast upp í kerfinu og valda okkur, satt að segja, nokkrum vandræðum þegar við erum að láta meta lánskjör okkar erlendis.