Lánsfjáraukalög 1994

8. fundur
Fimmtudaginn 13. október 1994, kl. 12:29:38 (369)


[12:29]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég held að við þingmenn Framsfl. skiljum fjármagnsmarkaðinn ekkert síður en hæstv. fjmrh. Staðreyndin er náttúrlega sú að það sem varð þess valdandi að vextir lækkuðu loksins á síðasta ári var, þó það væri ekki formleg stjórnvaldsaðgerð, þá var það nánast hótun ríkisstjórnarinnar um að lækka vextina. Það var handaflsaðgerð ( Fjmrh.: Hótun og . . .  ) því að hinn svokallaði markaður og ég viðurkenni það fúslega, að til lengri tíma litið lýtur fjármagnsmarkaðurinn ákveðnum markaðslögmálum, en sá markaður var bara árum saman búinn að vera afar afskræmdur. Hann var búinn að vera sjálftökumarkaður þeirra sem eiga peningana, eins og ég sagði hér áðan við hæstv. fjmrh. Og núv. hæstv. ríkisstjórn var búin að þverskallast við árum saman að viðurkenna þetta. Fyrst var sagt á upphafsdögum þessarar ríkisstjórnar að þetta mundi nú allt saman koma þegar búið væri að ná niður fjárlagahallanum, þá mundu vextirnir lækka. Fjárlagahallinn fór upp úr öllu valdi eins og við þekkjum og þá var það næsta að þetta mundi allt saman lagast þegar búið væri að opna fjármagnsmarkaðinn fyrir erlendu fjármagni. En það rann smám saman upp fyrir hæstv. ríkisstjórn að það dugði ekki heldur. Það urðu að koma til ákveðnar stjórnvaldsaðgerðir, sem ég vil leyfa mér að kalla handaflsaðgerðir, til þess að markaðurinn léti segjast.