Lánsfjáraukalög 1994

8. fundur
Fimmtudaginn 13. október 1994, kl. 12:31:21 (370)


[12:31]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Það frv. sem hér liggur fyrir til lánsfjáraukalaga sætir í sjálfu sér sem slíkt ekki stórum tíðindum. Það hefur verið í burðarliðnum alllengi og ég get út af fyrir sig tekið undir það með öðrum sem hér hafa talað, að ég sé ekki betur en menn neyðist til þess að hafa svona heldur hraðar hendur við að afgreiða það gegnum þingið vegna þess hvernig stendur á með langa biðlista fólks eftir húsbréfum.
    Ég verð hins vegar að segja alveg eins að er að mér finnst ekki mikil alvara í flutningi þessa máls

í þessari virðulegu stofnun og ég er þá í sjálfu sér ekki að gagnrýna hæstv. fjmrh. heldur hæstv. félmrh. Þetta er stórmál sem snertir náttúrlega hans málaflokk og ég segi alveg eins og er að ef ríkisstjórninni er svona mikið kappsmál að róta málinu í gegn og stjórnarandstaðan hefur fallist á að gera það fyrir sitt leyti með því að flýtt er fundum í efh.- og viðskn., málið tekið þar fyrir í morgun án þess að því hafi verið vísað þangað og ég heyrði það á formanni hv. nefndar hér áðan að hann hafði góð orð um að hraða málinu. Það skilja því allir hversu mikilvægt málið er, en þegar kemur að því að eiga orðastað við hæstv. félmrh. um húsnæðismálin þá vantar hann. Mér finnst satt að segja að málið hljóti þá að vera þannig að hann hafi afar gild rök fyrir sínum forföllum, afar gild rök, sem maður verður þá að una. Ekki ætla ég að fara að hafa hér uppi kröfur um það að hann verði kallaður til eða málinu verði frestað þangað til hann kemur. Ég treysti því þá að það verði hægt að tala eitthvað við hann um þessi húsnæðismál þegar hann kemur til verka. En þetta eru húsnæðismál sem við erum að tala um. Þetta eru ekki fyrst og fremst lánsfjárlagamál, þó að tæknilega heyri þau auðvitað undir hæstv. fjmrh. Þetta eru húsnæðismál, þetta eru félagsmál og þess vegna átti auðvitað hæstv. félmrh. að vera hér og ég gagnrýni það, mér finnst slæmt hvernig á því máli er haldið.
    Það hefði auðvitað verið ástæða til þess að fara yfir heildarstöðuna í húsnæðislánakerfinu, þessu húsbréfakerfi. Hér hafa vanskilin verið rakin nokkuð. Á fundi nefnarinnar mun það hafa komið fram í morgun að 23% húsbréfa vegna kaupa á notuðu húsnæði eru í vanskilum núna, 27% húsbréfa vegna nýbygginga einstaklinga, 14% húsbréfa vegna endurbótalána, 10% vegna verktaka og byggingaraðila og 60% af greiðsluerfiðleikalánunum munu vera í vanskilum. Þetta er það alvarlega í málinu, þetta er það alvarlega og það ljóta, að það er augljóst mál að það fólk sem hefur verið tekið inn í þetta kerfi á undanförnum árum hefur ekki ráðið við verkefnið á þeim forsendum sem voru settar upp þegar þetta fólk fór í gegnum greiðslumat. Og hver eru þá viðbrögð stjórnvalda? Það er alveg ótrúlegt. Viðbrögð stjórnvalda eru ekki það að taka á málum þessa fólks, að ég tel vera. Viðbrögð stjórnvalda eru þau að herða greiðslumatskröfurnar hjá þeim sem sækja um framvegis og það heyrist í raun og veru mjög lítið um að það eigi að taka á vandamálum þessa fólks sem þúsundum saman er að kikna undan afborganabyrði af þessu húsbréfakerfi. Og af hverju er það? Er það vegna þess að greiðslumatið hafi verið vitlaust á sínum tíma? Svarið er nei, það er ekki vegna þess. Það er vegna þess að allar aðstæður í þjóðfélaginu hafa breyst í grundvallaratriðum á þeim tíma sem liðinn er frá því að fólkið fór í gegnum þetta greiðslumat. Staðan er því þannig núna að þetta fólk er með lægra kaup, minni tekjur, minni atvinnu og, hæstv. forseti, hærri skatta, miklu hærri skatta og lægri vaxtabætur en lagt var af stað með þegar þetta fólk var sett inn í húsbréfakerfið.
    Ég segi fyrir mitt leyti að ég, sem aðili að þeirri ríkisstjórn sem sat hér þegar húsbréfakerfið var tekið upp, verð að játa það að ég var býsna seinþreyttur til þess að efna til óeirða út af málinu. En þó fór svo að það urðu talsverðar umræður í þáv. ríkisstjórn um málið. Það var m.a. tekin saman skýrsla, að mínu frumkvæði sem menntmrh., sem er óvenjulegt, um horfur í húsbréfakerfinu, af starfsmanni Seðlabankans sem ég fékk til liðs við mig í þessu máli. Því miður, segi ég, hefur það komið í ljós að allar þær niðurstöður sem birtust í þeirri skýrslu hafa komið á daginn. Af hverju? Fyrst og fremst vegna þess að menn töldu að það væri hætta á því að fólk réði ekki við afborganirnar af þessu kerfi.
    Ég er t.d. með hérna fyrir framan mig sögu ungra hjóna sem hafa tekið lán í þessu kerfi, eru með tiltölulega góðar tekjur eftir atvikum af því að þau vinna mjög mikið. Einkum gátu þau unnið mjög mikið í upphafi þessa tíma þegar þau fóru gegnum þetta greiðslumat á árinu 1990 og heildarlaun þeirra voru þá býsna há, um 3,2 millj. kr. Þau hafa verið á sama vinnustað síðan, þau hafa ekki lent í atvinnuleysi. Hver ætli heildarlaun þeirra á sömu vinnustöðum séu núna, á sama verðlagi reiknað eftir lánskjaravísitölu? 2,7 millj. kr. Sem sagt, þau laun sem gengið var út frá við greiðslumatið hafa lækkað um 500 þús. kr. á ári hjá þessum ungu hjónum. En til viðbótar við þetta er það þannig að barnabætur hafa breyst, skattar hafa breyst með þeim hætti að það sem þau hafa til þess að borga upp í húsbréfaskuldirnar sínar er nákvæmlega þessi stærð, 500 þús. kr. minna en áður var, sem stafar ekki bara af tekjufallinu heldur líka af því að skattarnir hafa hækkað þeim í óhag um það bil um 50 þús. kr. á ári.
    Svona dæmi þekkjum við sennilega mörg, öll sem erum hér í þessum sal. Það er satt að segja alveg ótrúlegur fjöldi fólks sem t.d. kemur til mín sem þingmanns hér á þessu svæði. Einmitt þetta fólk. Það vinnur býsna mikið. Það er reglusamt, þetta fólk. Það er duglegt, þetta fólk. Það heldur vel utan um sín mál. Þetta eru ekki óreiðugemsar af neinu tagi, eins og stundum er talað um að því er varðar þetta fólk. Það er ekki þannig. Þetta er fólk sem vandar sig, vinnur myrkranna á milli, hefur ekki tíma til þess eins og það vildi að sinna börnunum sínum og heimili sínu, stundum með erfiðum afleiðingum fyrir viðkomandi aðila. Það er augljóst mál að þetta gengur ekki. Og það er í raun vitlaus nálgun þessa máls að mínu mati að tala bara um þetta út frá einhverjum tæknilegum forsendum fjmrn. Þetta er allt annað mál. Þetta er mál þessara einstaklinga, þúsunda, sem hér um ræðir. Um það á að tala. Þess vegna á hæstv. félmrh. að vera hér.
    Hefur hann eitthvað lagt til þessara mála, hæstv. forseti? Jú, það hefur hann reyndar gert. Ég sá ekki betur en það væri viðtal við hann í blaði hér á dögunum þar sem hann lýsti því yfir að það þyrfti að skapa möguleika til að lengja lánstímann hjá þessu fólki, á þessum fasteignaveðlánum, og taka upp það sem kallað hefur verið fljótandi eða breytilegur lánstími, mismunandi eftir tekjum þeirra sem hafa tekið lánin. Og ég held að það sé eina leiðin í þessu máli, að reyna að finna leið til þess að fjármagna það sem kallað hefur verið fljótandi eða breytilegur lánstími, m.a. með hliðsjón af því að aðstæður hjá fólki hafa breyst frá því að lánin voru tekin, frá því að fólk fór í gegnum greiðslumat.
    Ég held þess vegna að það hefði verið full ástæða til að ræða þetta í leiðinni og ég vil hvetja hv. efh.- og viðskn. til þess að fara yfir þetta líka, þessa hlið málsins, sem snýr að þessum einstaklingum, sem nefndin hefur vonandi þegar ætlað að gera og kannski að einhverju leyti gert, ég þekki það út af fyrir sig ekki nákvæmlega.
    Hitt er kannski sérstök ástæða líka til þess að kalla einmitt eftir hæstv. félmrh., vegna þess að hann er búinn að hækka vextina á þessum lánum, hann er búinn að hækka ábyrgðargjaldið. Það er búið að leggja á þetta ábyrgðargjald, hækka það úr 0,25 í 0,35%. Og það er augljóst mál að þar er verið að stíga skref í þá átt að gera hvað? Að leggja byrðarnar af þessu kerfi og þeim vanda sem það birtir lántakendum, á lántakendur sjálfa og kannski þá sem síst skyldi. Þetta er alla vega ekki jafnaðarstefna, svo mikið er víst, og ég ætlast ekki til þess af hæstv. fjmrh. að hann framkvæmi jafnaðarstefnu, vegna þess að hann hefur, eins og kunnugt er, skipt þjóðfélaginu sér til hægðarauka í tvo hópa. Annar eru eigendur og hitt eru greiðendur og er afskaplega þægilegt fyrir fjmrh. að setja dæmið þannig upp og verður fróðlegt að vita hvenær þeir titlar birtast í símaskránni, eigendur og greiðendur. ( Fjmrh.: Ég hef ekki gert það.) Nú, hann hefur ekki gert það. ( Fjmrh.: Það er bara eitthvað úr pistlahöfundi útvarpsins.) Var það Hannes Hólmsteinn? ( Fjmrh.: Já.) Já, þeim var ruglað saman. Ég bið hæstv. fjmrh. innilega afsökunar. ( Fjmrh.: Það var rugl í pistlahöfundi.) Já, já, ruglað saman sem sagt hæstv. fjmrh. og Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni. Ég skil vel að hæstv. ráðherra skuli taka það óstinnt upp og ég skal aldrei gera það að ósekju aftur að hjóla í hann ( Fjmrh.: Rétt skal vera rétt.) með ásakanir af þessu tagi. Og rétt skal vera rétt, segir ráðherrann og hvessir sína ygglibrún ákaflega yfir þessum ótíðindum sem hafa hvolfst yfir hann í seinni tíð.
    Nei, auðvitað ætti að fara yfir þessi mál sérstaklega, m.a. vegna þess að þarna er náttúrlega ekki verið að framkvæma neitt sem heitir jafnaðarstefna. Það er verið að leggja þennan kostnað fyrst og fremst á þá einstaklinga sem kannski verða verst úti að því er þessa hluti varðar og það er ekki verið að dreifa þessum kostnaði með sanngjörnum hætti.
    Ég tel, hæstv. forseti, að þess vegna sé alveg óhjákvæmilegt að spyrja: Er það ekki alveg tryggt að hæstv. félmrh. verði hér þegar 2. og 3. umr. fer fram um þetta mál? Það þýðir ekkert að bjóða upp á, með leyfi að segja, hæstv. forseti, hæstv. umhvrh. í þessum efnum vegna þess að hann veit ekki nóg um þessi mál. Ég ætla ekki að segja það að hæstv. umhvrh. viti ekki neitt því það væri náttúrlega dónaskapur, hann veit örugglega talsvert, en hann veit ekki nóg til þess að taka þátt í þessum umræðum og þess vegna dugir það ekki að tefla honum fram eins og gert var í gær og í fyrradag þegar ráðherrar Alþfl. voru fjarverandi.
    Ég fer sem sagt eindregið fram á það að þegar 2. og 3. umr. um þetta mál fer fram þá verði hæstv. félmrh. örugglega viðstaddur því það verður auðvitað að taka á þessu máli sem vandamáli þess fólks sem hér um ræðir fyrst og fremst, þ.e. skuldarana.
    Staðreyndin er sú t.d. að í þessu byggðarlagi hér háttar þannig til að um helmingur af öllum vanskilum í húsbréfakerfinu er úr Reykjavík og það er alveg augljóst mál að hér er um gríðarlega ljótt vandamál að ræða mjög víða og þegar maður leggur saman Reykjavík og Reykjanes þá eru 79% umsækjenda vegna greiðsluerfiðleika í Reykjavík og Reykjaneskjördæmi.
    Ég held þess vegna að það sé alveg óhjákvæmilegt að ræða þessi mál mjög rækilega við hæstv. félmrh. og þess vegna óska ég mjög eindregið eftir því að hann verði kallaður hér til við framhald þessarar umræðu.
    Síðan vil ég minna á það, hæstv. forseti, að hér liggur þegar fyrir till. til þál. frá mér og hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni um greiðsluaðlögun og ég vænti þess að sú tillaga geti komið hið fyrsta á dagskrá þannig að það verði hægt að framkvæma það sem þar er gerð tillaga um. Þar er lagt til að ríkisstjórninni verði falið að koma á kerfi mismunandi lánstíma húsnæðislána, þ.e. sem kallað hefur verið í seinni tíð fljótandi lánstíma með því að endurfjármagna fasteignaveðlánin að einhverju leyti, t.d. með nýjum samningum við lífeyrissjóðina sem ég er alveg sannfærður um að eru tilbúnir til þess að hlaupa undir bagga að því er þetta mál varðar.
    Ég vildi sem sagt koma þessum alvarlegu athugasemdum á framfæri, hæstv. forseti, varðandi húsnæðismálin almennt. Hér er þetta þannig að mörg þúsund manns, mörg þúsund heimila standa hrikalega illa vegna þess að fólk ræður ekki við að borga af þessum bréfum og það er skylda Alþingis að nálgast þetta mál út frá fólkinu en tæknilegar vangaveltur af ýmsu tagi eru fyrir utan þann vanda og umræður um eðli markaðarins til eða frá í þessu efni --- ég ætla ekki að fara út í það þó ég gæti það út af fyrir sig vel enda hefur hæstv. fjmrh. lýst því yfir að markaðurinn eigi ekki sæti á Alþingi sem persóna þó að mér hafi stundum fundist það vera svo í máli hæstv. fjmrh.