Lánsfjáraukalög 1994

8. fundur
Fimmtudaginn 13. október 1994, kl. 12:48:52 (372)


[12:48]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Út af fyrir sig er það rétt sem hæstv. fjmrh. segir að kaupmáttur hefur verið að breytast á talsvert löngum tíma. Ég dreg það ekki í efa og þekki það reyndar. Hins vegar er það alveg ljóst að á þeim tíma sem núv. ríkisstjórn hefur setið þá hefur tvennt gerst til viðbótar sem breytir þessu dæmi, það er ekki hægt að neita því. Annars vegar eru hækkanir á sköttum einstaklinga, það er alveg ljóst. Það hefur verið fluttur til verulegur skattaþungi frá fyrirtækjum yfir á einstaklinga upp á 5.000 millj. kr. eða svo a.m.k. Þetta er auðvitað mjög veigamikið atriði en hitt er þó kannski enn þá þýðingarmeira, hæstv. ráðherra, og það er að vinnan hefur minnkað og yfirborganirnar hafa minnkað. Það er málið sem er að koma fyrst og fremst niður á því fólki sem fór í gegnum greiðslumat á sínum tíma. Nú kann það auðvitað vel að vera að það sé hægt að reikna út einhver meðaltöl sem sýni fram á það að tiltekinn hluti af fólki sleppi og guði sé lof er það þannig. En samt sem áður er það svo, hæstv. forseti, að stór fjöldi fólks, margir tugir prósentna lántakendanna hefur misst meira í tekjum en meðaltalið segir til um og það er þessi hópur sem okkur er skylt að horfa á líka hvað svo sem meðaltalið kann að segja. Og svo endurtek ég það að ég skil það vel að hæstv. fjmrh. skuli vera sár yfir því að honum hafi verið ruglað saman við Hannes Hólmstein Gissurarson, ég endurtek að ég skal reyna að forðast það framvegis.