Lánsfjáraukalög 1994

8. fundur
Fimmtudaginn 13. október 1994, kl. 14:11:07 (379)


[14:11]
     Pétur Bjarnason (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. skýringarnar en þær staðfesta nákvæmlega það sem ég var að segja, einmitt þetta, að það var verið að fjármagna tvö kerfi án þess að hafa til þess burði, varð til þess að stór hluti þessa hóps hafi bundið vonir við það kerfi sem var í gangi sem búið var að auglýsa fyrir fólk að það gæti gengið að. Það beið eftir sínum húsnæðisstjórnarlánum. Það fékk þau ekki eins og eftir 12 mánuði eða 14 mánuði eins og búist hafði verið við. Ég þekki mýmörg dæmi um þetta og ég veit að þetta er rétt. Það fékk ekki þessi lán. Það varð að fara í bankakerfið og það varð að fá okurlán. Ég get líka nefnt dæmi um það í opinberum sjóði. Þeir hafa fengið lán upp á 1.500 þús., útgreiðslan varð 1.200 þús. og endurgreiðsla var tæpar 2 millj. Skoði menn þetta og ef þetta er ekki okurstarfsemi, reyndar lögvernduð, þá veit ég ekki hvað það er, en þetta er einmitt ástæðan. Það var verið að vinna úr tveimur kerfum án þess að hægt væri að sinna því og þeir sem þarna þurftu að fá lán fengu það ekki fyrr en of seint.