Lánsfjáraukalög 1994

8. fundur
Fimmtudaginn 13. október 1994, kl. 14:14:50 (382)


[14:14]
     Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég ber vissulega ábyrgð á þessu kerfi svo lengi sem ég var í stól félmrh. enda fór mikið af mínum tíma í það að berjast við fjmrn. um það að þeir eyðilegðu ekki þetta kerfi sem þó hefur sparað ríkissjóði mjög mikið fjármagn þegar var fallið frá 86-kerfinu. Og mér finnst það mjög sérkennilegt að kenna nú Húsnæðisstofnun um það að þetta frv. kom ekki hér fram fyrr vegna þess að Húsnæðisstofnun varaði við þessu seinni part júnímánaðar í hvað stefndi og ég spyr: Hvenær komu þá tillögurnar á borð húsnæðismálastjórnar? Varðandi ríkisábyrgðina þá er náttúrlega alveg ljóst að hér er um mjög dreifða ábyrgð að ræða og margir lántakendur og það er alveg ljóst að það mun hækka vextina verulega ef það á að fara að afnema ríkisábyrgðina. Hæstv. ráðherra nefndi það hér fyrr í þessum umræðum að það þyrfti að afnema hana og notaði það sem rök að það væri erfitt að vera að sýna þessar ábyrgðir vegna þess að þetta væri metið inni í lánskjörum sem okkur væri boðið erlendis. Ég vil minna á að OECD hefur gert athugasemdir við það hvernig húsbréfin eru færð sem lántökur og sagt að það væri ekki í samræmi við það sem gerist og gengur. Það væri ágætt að vita hvort þessu hafi verið breytt til samræmis við það sem OECD hefur lagt til vegna þess að þeir benda einmitt á að það er ekki um beinar lántökur að ræða.