Lánsfjáraukalög 1994

8. fundur
Fimmtudaginn 13. október 1994, kl. 14:16:34 (383)


[14:16]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil taka það fram að ástæðan fyrir því að fjmrn. hefur reynt að fá félmrh., fyrrv. og núv., til að breyta reglum er til að verja þetta kerfi. Við höfum haft upplýsingar undir höndum um það hvert það er að þróast og við viljum verja kerfið. Til þess að geta varið kerfið þurfa menn að bera ábyrgð á því en ekki einungis að sjá um það að útlánin séu þetta og þetta mikill eftir því sem markaðurinn biður um. Við berum ábyrgð á kerfinu vegna þess að það er ríkisábyrgð á þessum peningum. Ég vil segja það að 4. maí vorum við sammála um það að fyrir 15. júní skyldu koma fram tillögur frá stjórn Húsnæðisstofnunar. Þær komu í lok september og kláruðust í október eða fyrir u.þ.b. viku síðan.
    Og loks: OECD getur gert athugasemdir við uppsetninguna. Það hefur enga þýðingu því að þau tvö fyrirtæki sem meta lánshæfni Íslendinga, Standard and Poor og Moody's, spyrja um skuldbindingar ríkissjóðs, hverjar sem þær eru á hverjum tíma.