Lánsfjáraukalög 1994

8. fundur
Fimmtudaginn 13. október 1994, kl. 14:37:26 (391)


[14:37]
     Svavar Gestsson (andsvar) :

    Virðulegur forseti. Ég tel nú satt að segja að þetta fortíðarkarp þjóni engum tilgangi. Staðreyndin er hins vegar sú að vextir af lánum á árunum 1980--1983 voru miklu lægri en þeir eru núna. Menn voru að tala þá um rétt rúmlega raunvexti í hinu almenna bankakerfi. Og við skulum bara skoða tölurnar yfir það hversu mikið af íbúðum byggði hinn almenni maður í landinu á þessum tíma og berum það saman við það sem það er í dag. Þegar hið almenna íbúðarbyggingarkerfi er svo að segja hrunið vegna þess að hinn almenni launamaður með venjulegar tekjur og hið venjulega puð ræður ekki við hlutina eins og þeir eru.
    Hvert var svo vandinn fluttur úr 86-kerfinu, úr húsbréfakerfinu, úr þessum kerfum öllum? Hvert var hann fluttur? Var hann fluttur á ríkissjóð? Nei, hann var fluttur í formi affalla á bakið á því fólki sem tók húsbréfin upp á milljarða og aftur milljarða króna. Það er í raun og veru lending sem er okkur til skammar sem að því stóðum.