Lánsfjáraukalög 1994

8. fundur
Fimmtudaginn 13. október 1994, kl. 14:53:12 (393)


[14:53]
     Jóhanna Sigurðardóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil taka undir það síðasta sem fram kom hjá hæstv. fjmrh. að þetta mál verði afgreitt fljótt og vel. Ég sat fund efh.- og viðskn. sem áheyrnarfulltrúi og það er alveg ljóst að það er fullur vilji til þess að flýta þessu máli eins og kostur er enda skilja allir mikilvægi þess að það verði gefinn út húsbréfaflokkur sem fyrst og þó fyrr hefði verið.
    Ég vil aðeins fara nokkrum orðum um það sem fram kom hjá hæstv. fjmrh. Fyrst varðandi innstæðuna í Seðlabankanum. Ég held, hæstv. fjmrh., að ætti að skoða hvort það væri ekki hægt að fá meira út úr þessari ávöxtun annaðhvort hjá Seðlabankanum eða annars staðar. Ég er alveg viss um að lánastofnanir væru tilbúnar að gefa betri ávöxtun á þá innstæðu og það fjármagn sem þar liggur um þó nokkurn tíma, 1--2 milljarðar, heldur en sú ávöxtun sem Seðlabankinn gefur. Þeir hafa hækkað sig. Þeir voru í 1,2% raunávöxtun 1993 og mér sýnist að þetta sé eitthvað yfir 2% núna fyrir 1994. En það er allt of lítið, vegna þess að ég veit að t.d. lífeyrissjóðirnir fá meira en helmingi hærri ávöxtun fyrir fjármagn sem þeir ávaxta í skamman tíma. Það er full ástæða til þess að skoða það þegar við erum að ræða hér um að fá einhverjar 10 millj. út úr lántakendum með hækkuðum vöxtum við svo erfiðar aðstæður sem þeir búa nú við. Þannig að ég treysti því að hæstv. fjmrh. og þá fjmrn. og félmrh. skoði það hvort hér megi ekki gera bragarbót á, vegna þess að það er ljóst að hluti af dráttarvöxtum fer núna í það að mæta þessum vaxtamun sem kemur fram vegna mismunandi tíma sem greiðslur á fasteignabréfum eru og svo innlausnir á húsbréfum. Og ef það væri ekki svo þá mætti hugsanlega nota þennan hluta í það að tryggja betur stöðu varasjóðsins og ég bið um að þetta verði skoðað.
    Mig langar aðeins, af því að ég hygg að það hafi gætt misskilnings hjá hæstv. fjmrh., alla vega hefur hann túlkað það sem ég sagði hér með öðrum hætti heldur en lá í mínum orðum. Þegar ég var að bera saman danska kerfið og það íslenska og talaði um ábyrgðargjald í því sambandi, þá er það þannig í Danmörku að það er 0,2% gjald og það tekur síðan mið af lánshlutfallinu, þ.e. að ef við hækkum lánshlutfallið í húsbréfakerfinu upp í 80% þá má auðvitað fara upp í 0,4%, en ekki miðað við mismunandi veðhæfni eigna og hann vill þá kannski --- ja, ég veit ekki hvað hæstv. ráðherra ( Fjmrh.: Það spilar inn í þetta.) já, það spilar inn í þetta. Ef hæstv. ráðherra er að tala um að fara í það að hækka lánshlutfallið í húsbréfakerfinu upp í 80% og mér heyrist að hæstv. ráðherra sé jákvæður fyrir því að skoða það að hækka lánshlutfallið upp í 80%, þá mætti vissulega koma til skoðunar að ábyrgðargjaldið yrði 0,3 eða 0,4. Það kæmi fyllilega til skoðunar. En ég segi aftur, hæstv. ráðherra, að það er óraunhæft að tala um það, eins og mér fannst síðar liggja í orðum hæstv. ráðherra, að það eigi að gera innan núverandi útgáfu húsbréfa, þ.e. það eigi ekki að auka hana. Vegna þess að við höfum látið reikna út að ef það á einungis að hækka lánshlutfallið í húsbréfakerfinu upp í 75% fyrir fyrstu íbúðarkaupendur þá erum við að tala um aukna útgáfu á húsbréfum upp á 1--1,5 milljarða. Þannig að liggi ekki fyrir yfirlýsing ráðherrans um það að hann sé opinn fyrir því að skoða það í leiðinni, þá er þetta ekkert marktækt sem ráðherrann er að tala um, að hann sé opinn fyrir því að skoða það að hækka lánshlutfallið í húsbréfakerfinu.
    Varðandi lengingu lánstímans upp í 40 ár, þá hef ég ákveðnar efasemdir um það, sem ég hef lýst og mér heyrist að hæstv. fjmrh. taki undir. Það geta verið erfiðleikar með að selja slík bréf til svo langs tíma án þess að hækka verulega ávöxtunarkröfuna. En ég spyr hæstv. ráðherra: Er hann þá tilbúinn að skoða aðrar leiðir fyrir það fólk sem er í miklum greiðsluerfiðleikum nú? Er hann tilbúinn að skoða aðrar leiðir? Þá nefndi ég eina leið sem var að víkka út þær heimildir sem nú eru til staðar varðandi skuldbreytingu í húsnæðiskerfinu. Ég held að það sé mjög mikilvægt ef hægt væri að fara slíka leið og hvet til þess að það verði skoðað hvort það sé skynsamlegt að fara þessa leið varðandi lengingu lánstímans, þó ég hafi ákveðnar efasemdir um að það skili sér til fólks.
    En ég treysti því að það verði ekki síðar en strax í byrjun næstu viku sem þetta frv. verði afgreitt hér sem lög frá Alþingi þannig að það sé hægt að fara að afgreiða hér húsbréf aftur. Nóg vandræði hafa nú skapast vegna þess að þetta hefur ekki verið lagt fram fyrr hér á hv. Alþingi.