Lánsfjáraukalög 1994

8. fundur
Fimmtudaginn 13. október 1994, kl. 15:02:42 (396)


[15:02]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Einungis fáein orð um hlutverk stjórnar Húsnæðisstofnunar. Hv. þm. þekkir mjög vel úr sínu starfi að það hefur komið fyrir að boð hafa komið allt of seint til félmrn. frá Húsnæðisstofnun um það hvað er að gerast í þessu kerfi. Til þess að varðveita kerfið, til þess að styrkja og tryggja þetta kerfi í sessi á meðan það er ríkisábyrgð á því, þá hlýtur það að vera í verkahring stjórnar stofnunarinnar að sjá til þess að reglurnar, þar á meðal reglur um mat umsækjenda, séu með þeim hætti að það sé líklegt að ekki skapist hætta í kerfinu á vanskilum. Það er líka hlutverk stofnunarinnar að láta vita þegar hætta kemur upp í kerfinu um það að peningar séu ekki nægir og gera þá tillögur um það að úr verði bætt. Í júní sat þingið ekki, en í byrjun maí áleit félmrn. að vöntunin í kerfinu yrði um einn milljarður kr.