Atvinnuleysistryggingar

8. fundur
Fimmtudaginn 13. október 1994, kl. 15:10:30 (400)


[15:10]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Hv. 5. þm. Norðurl. e. flytur hér hið þarfasta mál um breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar. Þetta mál er efnislega mjög svipað og frv. sem ég flutti ásamt öðrum þingmönnum Alþb. fyrir tveimur árum og man nú reyndar ekki eftir því að hv. þm. hafi þá séð ástæðu til að taka undir það. Ég tel engu að síður ástæðu til að taka undir þetta frv. hans og fagna því að það skuli vera komið fram og vek athygli á því að það er dálítið sérkennilegt að sömu þingmennirnir og flytja frv. til fjárlaga fyrir árið 1995, þar sem vantar þúsund milljónir, eru á sama tíma að flytja hér frv. til útgjaldaauka fyrir Atvinnuleysistryggingasjóð á næsta ári. Nú getur vel verið að hæstv. fjmrh. hafi skipt um skoðun frá því að hann lagði fram fjárlagafrv. og að hv. þm. hafi tekist að beygja hæstv. fjmrh. til þess að auka fjármuni Atvinnuleysistryggingasjóðs á næsta ári. Það er nauðsynlegt að hv. þm. geri grein fyrir því, vegna þess að það er auðvitað ekki hægt fyrir stjórnarþingmenn að leika tveim skjöldum, eins og mér finnst að menn hafi verið að gera í flutningi almennra umbótamála hér í dag, m.a. um breytingar á skattalögum, sem kosta svo og svo mikið af peningum, m.a. um breytingar á atvinnuleysistryggingasjóðslögum, sem kosta svo og svo mikið af peningum. Og áður en lengra er haldið með þetta mál þá held ég að sé nauðsynlegt að fá að vita: Er einhver raunverulegur pólitískur vilji á bak við þetta frv., þ.e. hans flokks, eða er hér einungis um að ræða frómar óskir þingmannsins sjálfs?