Atvinnuleysistryggingar

8. fundur
Fimmtudaginn 13. október 1994, kl. 15:16:54 (403)


[15:16]
     Flm. (Tómas Ingi Olrich) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er á hv. þm. Svavari Gestssyni að skilja að atvinnuleysi og þar af leiðandi þörfin fyrir atvinnuleysisbætur sé einhver stöðug tala. Að sjálfsögðu hlýtur hún að fylgja því hvernig ástandið í þjóðfélaginu verður og hvort það verður uppgangur í atvinnulífinu. Það er til allrar hamingju farið að rofa til í atvinnulífinu á Íslandi. ( IP: Hvar?) Þegar talað er við fulltrúa iðnaðarins, hv. þm. Ingibjörg Pálmadóttir, þá er þar hægt að sýna fram á að á fyrstu átta mánuðum þessa árs hefur orðið veruleg magnaukning hjá íslenskum iðnaði. Sú magnaukning er sennilega um 20% og verðmætaaukningin sem hefur orðið á þessum átta mánuðum hjá iðnaðinum er rúmlega 30%. Þetta gildir ekki aðeins um iðnaðinn í heild og þar með talinn að sjálfsögðu þungaiðnaðinn, heldur er um raunverulega raunaukningu að ræða hjá iðnaðinum líka þegar dreginn er frá honum þungaiðnaðurinn. Þetta eru tölur sem eru jákvæðar og benda til þess að við séum á leið upp úr öldudalnum. Ef svo fer sem horfir að þarna sé um raunverulegar framfarir að ræða í atvinnulífinu þá mun það að sjálfsögðu leiða til þess að þörf fyrir atvinnuleysisbætur mun minnka. En það er mjög erfitt að spá í það nákvæmlega hvar það stendur.
    Hins vegar getum við ekki gefið okkur að þarna sé um óbreytanlega stærð að ræða. Við verðum að gera ráð fyrir því að batnandi umhverfi í atvinnulífinu skili sér í minna atvinnuleysi.