Atvinnuleysistryggingar

8. fundur
Fimmtudaginn 13. október 1994, kl. 15:18:30 (404)



[15:18]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þetta var nú ofboðlítið fyndið satt að segja hjá hv. þm. Í fjárlagafrv. er reiknað með tilteknum stærðum varðandi atvinnuleysið. Vonandi verður það minna, kannski verður það því miður meira telja ýmsir en látum það kannski liggja milli hluta í bili. Það er reiknað með tilteknum stærðum og það eru stærðir sem ríkisstjórnin reiknar með. Það eru ekki stærðir sem ég reikna með, það eru stærðir sem ríkisstjórnin og Þjóðhagsstofnun reiknar með. Miðað við þær stærðir þá vantar þarna talsverða upphæð. M.a. er gert ráð fyrir því að skera niður atvinnuleysisbætur á næsta ári um 200 millj. kr. Það er ekki

vegna þess að menn séu fastir í einhverjum stærðum heldur er það bara þannig að menn verða að miða við eitthvað. Það er nú einfaldlega vandinn við að búa til fjárlagafrv. að menn verða að miða við eitthvað. Og niðurstaðan er sem sagt sú að menn reikna með að þarna vanti talsverða upphæð og það þurfi að skera niður bæturnar um 200 millj. kr. Auk þess er ekki gert ráð fyrir peningum til vörubílstjóra né heldur til trillusjómanna eins og sérstaklega var gert ráð fyrir með breytingu á reglugerð um atvinnuleysistryggingar á þessu ári. Svona er veruleikinn.
    Og ég endurtek að það er athyglisvert. Ég segi ekki að það beri vott um hræsni, það sagði ég ekki. Ég segi ekki að það beri vott um tvískinnung, það sagði ég ekki. Ég sagðist virða það að þingmaðurinn hefði áhuga á málinu. En ég segi: Það er skrýtið að sami þingmaður flutti í gær frv. um að skera þetta niður, frv. til fjárlaga fyrir árið 1995. Það er sérkennilegt. En batnandi manni og mönnum er best að lifa, líka þeim sem eru í stjórnarflokkunum.