Skipun nefndar um vatnsútflutning

8. fundur
Fimmtudaginn 13. október 1994, kl. 15:39:35 (415)

[15:39]
     Flm. (Jón Helgason) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. á þskj. 22 um skipun nefndar um vatnsútflutning.
    Batnandi afkoma íslensku þjóðarinnar á þessari öld hefur byggst á vaxandi framleiðslu og verðmætamyndun. Grundvöllurinn hefur verið landbúnaður og sjávarútvegur. Þegar kom fram á síðari hluta aldarinnar var ljóst að aukningu í báðum þessum greinum var takmark sett. Með vaxandi tækni varð að takmarka sókn í fiskstofnana og ekki var viðunandi markaður fyrir aukna búvöruframleiðslu. Þessar staðreyndir hafa sjálfsagt átt mestan þátt í að koma af stað umræðu um nýtingu innlendra orkugjafa til aukins iðnaðar, sérstaklega stóriðju. Voru settar fram hugmyndir um miklar framkvæmdir á þessu sviði um leið og hafist var handa við fyrstu verksmiðjuna. Önnur verksmiðja var reist nokkrum árum seinna en síðan ekki söguna meira.
    Þrátt fyrir það að miklum kröftum og fjármagni hafi í meira en áratug verið varið til að halda áfram á þeirri braut þá hefur það orðið árangurslaust. Það er því mikilvægt að leita annarra leiða til að nýta okkar auðlindir sem geta skapað skilyrði til að jafna og bæta lífskjörin í landinu.
    Í tímaritinu AVS, Arkitektúr, verktækni, skipulag, var fyrr á þessu ári fjallað um hina miklu nytjavatnsauðlind okkar og möguleika á nýtingu hennar. Þar segir svo m.a., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Gott, ómengað vatn er ekki lengur óþrjótandi auðlind. Sú mengun sem átt hefur sér stað í kjölfar iðnbyltingarinnar hefur spillt vatnsbirgðum jarðarinnar mjög víða þannig að sífellt færri eiga kost á nægu fersku drykkjarvatni sem ekki hefur þurft að hreinsa. Án vatns er ekkert líf og ef við eigum ekki kost á góðu vatni þá lifum við ekki góðu lífi. Enn þann dag í dag fær ekki nema þriðjungur jarðarbúa vatn úr þokkalegri vatnsveitu. Hinir þurfa að láta sér nægja vatn úr brunnum, ám, stöðuvötnum og þess háttar sem oft er meira eða minna mengað. Í dag er mikill hluti af neysluvatni Evrópubúa unninn úr menguðu vatni stórfljóta sem að vísu er hreinsað en sem aldrei er unnt að hreinsa til hlítar. Auðvitað verður slíkt vatn aldrei borið saman við ferskt íslenskt vatn sem rennur ómengað ofan af hálendi Íslands.`` --- Og enn fremur:
    ,,Því er fyrst og fremst litið til grunnvatnsins sem uppsprettu neysluvatns og raunar til flestrar annarrar vandaðri vatnsnýtingar. Þar er heldur ekki komið að tómum kofunum hér á landi. Metið hefur verið að a.m.k. 1.000 rúmmetrar á sekúndu spretti upp í lindum og lindarsvæðum. Af því koma um 400 rúmmetrar á sekúndu upp í byggð á landinu. Gjöfulasta lindarvatnssvæðið er við Þingvallavatn en í það renna 80 rúmmetrar á sekúndu ef varlega er metið. Víðar eru mikil lindarvötn. Í Grímsnesi, Laugardal og Biskupstungum um 50 rúmmetrar á sekúndu, í Landsveit og á Rangárvöllum um eða yfir 20 rúmmetrar, undan hraunum í Meðallandi og Landbroti um 40 rúmmetrar, í Mývatnssveit um eða yfir 30 rúmmetrar, í Kelduhverfi og Öxarfirði um eða yfir 30 rúmmetrar, undan Hallmundarhrauni og Geitlandshrauni yfir 30 rúmmetrar á sekúndu.
    Það er háð nýtingu vatnsins og unnu magni, hversu miklum verðmætum nytjavatnsauðlindin skilar. Vatnið í veitum og krönum landsmanna er virði nokkurra milljarða króna, eins og stendur, en verðmæti auðlindarinnar er margfalt meira. Allt lindarvatn í byggð, flutt út í dýrum neytendaumbúðum, skilaði tvö hundruð þúsund milljörðum íslenskra króna, eða fimmþúsundföldum þjóðartekjum okkar núna. Sjálfsagt á sú arðnýting langt í land. Til þess þyrfti hvert mannsbarn um víða veröld að drekka tvo lítra af íslensku drykkjavatni á degi hverjum.
    Veljum annað viðmið: Tökum 10% af lindarvatni í byggð og seljum það á sama verði og kranavatn í Kaupmannahöfn. Því samsvarar að um 10 milljónir manna notuðu íslenskt vatn til heimilishalds. Það gæfi um 300 milljarða króna eða svipaða stærð og þjóðartekjur okkar eru.``
    Annað dæmi: ,,Einn rúmmetri á sekúndu, 1.000 sekúndulítrar teknir úr grunnvatni á höfuðborgarsvæðinu, t.d. í Heiðmörk eða við Straumsvík, og selt sem pakkað neysluvatn úr landi, t.d. á 20 cent lítrinn, gæfi svipaða niðurstöðu eða enn þá hærri. Allt eru þetta vergar tekjur, arðurinn er til muna minna.
    Hvernig svo sem þetta er og hvenær sem við förum að nýta þessa auðlind í stórum stíl þá er eitt ljóst: Við getum ekki leyft okkur að spilla nytjavatnsauðlindinni að þarflausu. Við verðum að vernda grunnvatnsauðlindina hvar sem er á landinu og við verðum að ástunda skynsamlega nýtingu vinnslu og sölu á þessu vatni.
    Hugsanlegur útflutningur á íslensku neysluvatni í miklum mæli er ekkert flýtiverk heldur krefst hann mikils og vandaðs undirbúnings, stefnumótunar og rannsókna, bæði hér á landi og erlendis. Margt bendir nú til þess að eitt af því skynsamlegasta sem við getum tekið okkur fyrir hendur sé að verja nauðsynlegu fé til þess að átta okkur á þeirri leið sem heppilegust er að fara til þess að gera okkur mat úr þessari auðlind.``
    Þetta eru nokkrar tilvitnanir í greinar úr þessu ágæta riti sem ég nefndi.
    Á síðustu árum hafa nokkrir aðilar hafist handa um útflutning á vatni í neytendaumbúðum og hefur öllum reynst það þungur róður. Stafar það af því að það kostar gífurlegt fjármagn og vinnu að komast inn á erlenda markaði en fyrirtækin hafa ekki haft bolmagn til þess samhliða nauðsynlegri fjárfestingu. En fyrir á hinum mikla neysluvatnsmarkaði eru stór og fjársterk fyrirtæki sem drottna þar í krafti auglýsinga á þekktum vörumerkjum. Við minnumst þess að það er ekki langt síðan franskt fyrirtæki varð fyrir því óhappi að vatnið sem það seldi stóðst ekki lágmarkskröfur hvað þá heldur að það geti keppt við gæði íslenska vatnsins.
    Með tilliti til þess hversu gífurlega auðlind við eigum, ef við berum gæfu til að varðveita hana, og hversu markaðurinn fyrir neysluvatn er stór og ört stækkandi þá er til mikils að vinna að ná þar traustri fótfestu. Því er mikilvægt að ríkisvaldið taki þetta mál föstum tökum, ekki síður en þegar verið var að vinna að undirbúningi stóriðjuverkefna. Þá var varið mörg hundruð milljónum eða jafnvel milljörðum króna, eftir því hvernig það er reiknað, þó að árangurinn yrði stundum aðeins skýjaborgir.
    Að mati flm. er því ekki síður ástæða til að skipa nefnd til að vinna að þessu verkefni heldur en stóriðjuverkefnunum. Þá voru skipaðar fjölmennar nefndir sem sátu að störfum í mörg ár til að reisa verksmiðju til að vinna úr innfluttu hráefni sem þarf að flytja um hálfan hnöttinn. Hér er hins vegar um að ræða lítt takmarkaða íslenska auðlind til að framleiða hágæðavöru sem vaxandi eftirspurn er eftir. Við höfum séð skýrt frá því að í sumum löndum er vatnið að verða dýrmætara en olían og vafalaust á þróunin eftir að stefna meira í þá átt.
    Ég hef því ásamt hv. þm. Stefáni Guðmundssyni og Jóhanni Einvarðssyni flutt eftirfarandi till. til þál. um skipun nefndar um vatnsútflutning:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd um vatnsútflutning. Í nefndinni eigi sæti fulltrúar allra þingflokka. Hlutverk hennar verði að móta framtíðarstefnu um nýtingu á þessari miklu náttúruauðlind. Enn fremur geri nefndin í samstarfi við Byggðastofnun áætlun um hvernig sú nýting megi verða til að efla byggð í þeim héruðum þar sem gnótt lindarvatns er fyrir hendi. Þá veiti nefndin í samvinnu við Útflutningsráð þeim aðilum, sem nú eru að hasla sér völl á þessu sviði, ráðgjöf og stuðning, sérstaklega við markvissa markaðssetningu.
    Í grg. þáltill. kemur fram að hún var flutt á síðasta þingi. Það var gert eftir umfjöllun allshn. Alþingis á þáltill. um stefnumótandi byggðaáætlun 1994--1997 en þá var nær komið að þinglokum svo tillagan komst ekki á dagskrá. En 1. flm. taldi að Alþingi hefði ekki tekið þá byggðaáætlun nægilega föstum tökum því að tækifærin séu víða fyrir hendi ef slík verkefni fá nauðsynlegan stuðning. Og því er bent á að það getur verið mikilvægur þáttur í byggðaþróun að nýta neysluvatnslindirnar þar sem þær eru dreifðar víða um landið.
    Í lok grg. þáltill. segir:
    ,,Á sl. sumri komu hingað nokkrir bandarískir krabbameinslæknar til að kynnast hinu ómengaða umhverfi. Eftir heimkomuna héðan sagði einn þeirra, Jonelle Reynolds, m.a. eftirfarandi í bréfi:
    ,,Ég vildi eiga kost á að fá íslenskt vatn, hvar sem ég ferðast. Það er besta vatnið sem ég hef drukkið og þið megið vera viss um að ég mun kynna og auglýsa ykkar ágæta vatn hvar sem ég get. Til viðbótar við þann markað sem þið hafið leitað á mundi ég leggja til að þið leituðu fyrir ykkur á öllum stærri hressingarhælum. Hver sá sem líkar framleiðsla ykkar verður góður sölumaður hvar sem hann býr og vekur áhuga hjá fólki sem hugsar um heilsu sína.``
    Það er vegna þessarar sannfæringar um að hér sé framúrskarandi hráefni sem við getum framleitt úr lífsnauðsynlega neysluvöru að þessi þáltill. er flutt og ég vænti þess að hún fái stuðning hv. alþm. annarra.
    Að lokinni þessari umræðu legg ég til að þáltill. verði vísað til síðari umræðu og iðnn.