Skipun nefndar um vatnsútflutning

8. fundur
Fimmtudaginn 13. október 1994, kl. 15:53:42 (416)


[15:53]
     Pétur Bjarnason :
    Virðulegi forseti. Ég vil taka undir þessa till. til þál. sem hérna er komin fram um skipun nefndar um vatnsútflutning og tek undir þau rök sem flm. hefur lagt hér fram því til stuðnings og vil bæta nokkrum við í viðbót.
    Við höfum eins og kom fram verið að velta fyrir okkur byggðaáætlun, hvernig við getum komið til móts við bæði atvinnuleysi núna, flótta fólks úr byggðum landsins og fjöldamargt fleira sem er að raska ýmsu í okkar þjóðlífi. Ég held að hérna sé einn af mjög vænlegum kostum til þess að koma þar til móts. Hérna er um að ræða íslenska stóriðju sem í rauninni hentar betur í dreifbýli en í stórum borgum að starfrækja beint vegna þeirra hagsmuna sem þar eru og hérna er um að ræða hreina náttúruafurð sem þarf að taka helst fjarri stærstu byggðum til að öruggt sé að gæðin haldist. Ég tel því að þetta sé mjög góður kostur og við ættum að taka upp mun nánari könnun á þessu sem fyrst og styðja þá aðila sem hér hafa verið að vinna að þessum málum á undanförnum árum með misjöfnum árangri, sumum allgóðum. Annars staðar hefur miður gengið og e.t.v. vegna þess að stuðning hefur vantað á samræmdar aðgerðir,
    Það eru nokkrar tölur hér í greinargerð um magn sem þarna gæti verið um að ræða í söluverði eða framleiðslu. Ég hef undir höndum tölur frá Bandaríkjunum, ekki þær nýjustu, en þær styðja þetta. Þar hefur á undanförnum ártug orðið gífurleg aukning á notkun sérpakkaðs vatns, bæði í fljótandi formi og í ísformi ekki síður. Sem dæmi um magnið má nefna að árið 1990, ég hef ekki nýrri tölur um vatnssöluna, var sala vatns í Bandaríkjunum 2.200 milljarðar dollara þannig að menn geti áttað sig aðeins á umfangi þessarar sölu. Þar af var innflutt vatn um 300 milljarðar dollara. Þá velta menn fyrir sér svona í fljótheitum hvað er það í krónum. Lauslega er þar um að ræða um 21 þús. milljarða íslenskra króna, innflutt vatnssala í Bandríkjunum. Nú er ekki raunhæft að ætla að við fáum nema brot af því og þó ekki væri nema brot af þessari tölu, þá gæti það verið gífurlega mikils virði fyrir þjóðarbúskap okkar Íslendinga. Þessi auðlind er fyrir hendi og það er spurning hvernig okkur tekst að nýta hana.
    Neysla á átöppuðu vatni eins og það er nefnt í Bandaríkjunum hefur vaxið milli áranna 1985, þá nam neyslan að jafnaði 4 1 / 2 galloni og óx upp í 8 gallon á einstakling 1990 sem aðeins á 5 ára bili næstum því tvöfaldast og þetta mun vafalaust aukast áfram af ýmsum ástæðum. Íssala í Bandaríkjunum er annað eins. Þarna er um að ræða vatnið en 1991 nam íssala í Bandaríkjunum 2.400 milljörðum dollara. Ég nefni þessa tölu hérna til þess að benda á hvílíkir hagsmunir geta verið hér í húfi og hversu þessi markaður er vænlegur til að líta á hann. Það eru engar horfur á að þarna verði um verðkollsteypur að ræða. Við eigum að geta boðið hérna upp á afskaplega góðar aðstæður og hreina og náttúrlega afurð sem á að vera auðvelt að markaðssetja ef rétt er staðið að undirbúningi, átöppun og því sem til þarf. Því held ég að þessi tillaga um nefndarskipun sé mjög tímabær og muni styrkja þá vöruþróun, aðferðir við vinnsluna og kannski sérstaklega markaðsmálin.
    Auk Bandaríkjanna sem ég nefndi hérna, þá er Miðjarðarhafssvæðið mjög vænlegt. Þar er mikil vatnsnotkun. Mexíkó hefur verið nefnt, sem stór aðili sem kaupir vatn, Japan og þar að auki eiginlega allur hinn norræni eða vestræni heimur getum við sagt í vaxandi mæli, ekki vegna hita eða annars slíks sem eru ytri aðstæður heldur vegna þess að átappað vatn er notað sem heilsuafurð og trygging fyrir því að fá það besta fáanlegt í glasið sitt á borðinu. Þetta er því mikið notað sem heilsuvara og ekki síst í því liggur gildi þessarar vöru og ég held að einmitt í tengslum við aðra þáltill. sem hér er á dagskrá í dag, þá sé þetta eitt af því sem þarf að skoða í sambandi við íslensk landgæði og einmitt mjög vænlegt nú á dögum samdráttar í fiskveiðum og ýmsu öðru sem hrjáir okkur að við leitum þá inn á við, leitum á náðir landsins okkar og þeirra gæða sem þar er að finna, þróum þau og nýtum þau okkur til framfærslu. Það er okkar líklegasta von til þess að lifa af í þessu landi.