Vantrauststillaga á ráðherra í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar

9. fundur
Mánudaginn 17. október 1994, kl. 15:10:15 (423)

[15:10]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Flokkum stjórnarandstöðunnar er ekkert að vanbúnaði að umræðan geti farið fram þegar á morgun. Hæstv. forsrh. kaus það í umræðu um störf ríkisstjórnarinnar að mana nánast fram vantraust á ríkisstjórn sína. Það er svo sérkennilegt að þegar vantraustið er komið fram má forsrh. ekki vera að því að ræða það.
    Það er heldur ekki ásættanlegt að það þurfi að bíða heimkomu forsrh. til þess að ræða hvenær umræðan geti farið fram. Hæstv. forsrh. er væntanlega í símasambandi við starfandi forsrh. og forseta þingsins. Ekki hefur verið upplýst hvaða erindum hæstv. forsrh. sé að sinna á erlendri grundu og væri mikilvægt ef starfandi forsrh. gæti upplýst það hvaða erindi eru svo mikilvæg að hæstv. forsrh. lætur þingið bíða eftir sér eins og hæstv. forseti lýsti hér áðan.
    Okkur er ekkert að vanbúnaði að ákveða nú þegar að umræðan geti farið fram og við teljum óeðlilegt að hún bíði eftir heimkomu forsrh. Að gefnu tilefni vil ég líka spyrja virðulegan forseta: Er þá tryggt að aðrir ráðherrar verði í landinu frá og með miðvikudagi í þannig að umræðan geti þó farið fram í þessari viku?