Vantrauststillaga á ráðherra í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar

9. fundur
Mánudaginn 17. október 1994, kl. 15:13:14 (425)



[15:13]
     Halldór Ásgrímsson :
    Virðulegur forseti. Mér virðist að hæstv. ríkisstjórn taki þessa vantrauststillögu ekki alvarlega en

ég vil fullvissa hæstv. ríkisstjórn um það að að sjálfsögðu á að taka vantrauststillöguna alvarlega og hún er flutt á starfandi ríkisstjórn, ríkisstjórn Davíðs Oddssonar. Stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar hafa haldið því fram að undanförnu í umræðu að hægt sé að treysta ríkisstjórninni vel þótt menn vantreysti einstökum ráðherrum. Því hefur verið haldið fram að það geti vel komið fyrir að það verði samþykkt vantraust á einstaka ráðherra en ríkisstjórnin njóti fulls trausts eftir sem áður. Þessi umræða hefur að sjálfsögðu ruglað allt þetta mál og þess vegna er nauðsynlegt að flytja vantrauststillöguna með þessum hætti. Það er vegna þess hvernig ráðherrar í hæstv. ríkisstjórn hafa talað að tillagan er flutt á þennan hátt. Eða reiknar Sjálfstfl. með því að verði vantraust samþykkt á hæstv. fjmrh., Friðrik Sophusson, að hann mundi starfa í ríkisstjórn eins og ekkert hefði skorist? Eða reiknar Alþfl. með því að verði samþykkt vantraust á hæstv. utanrrh. af nokkrum þingmönnum Sjálfstfl. ásamt stjórnarandstöðunni að Alþfl. starfaði í ríkisstjórn eins og ekkert hefði í skorist? Þess vegna er tillagan flutt á þennan hátt og ég bið hæstv. ríkisstjórn að vera heima og taka málið alvarlega. Ég mótmæli því að ekki eigi að ræða um það hvenær umræður fari fram í þinginu fyrr en seinni hluta þessarar viku. Þær umræður eiga að sjálfsögðu að fara fram milli flokkanna nú þegar eða í síðasta lagi á morgun. Það er engin ástæða til að bíða heimkomu hæstv. forsrh. í þessu sambandi enda stjórnar hann ekki þinginu eftir því sem ég best veit.