Vantrauststillaga á ráðherra í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar

9. fundur
Mánudaginn 17. október 1994, kl. 15:22:57 (432)

[15:22]
     Rannveig Guðmundsdóttir :
    Virðulegur forseti. Ekki hefur staðið á Alþfl. að mæta á fund þingflokksformanna til að ræða hvenær umræða um vantraust gæti farið fram. Slíkur fundur hefur ekki verið boðaður og ekkert verið óskað eftir að við settumst niður til að skoða dagsetningar um slíkt. Allar getsakir um að við séum til trafala í þessu máli eiga því ekki við nein rök að styðjast.
    Hins vegar er það svo að tveir ráðherrar Alþfl. eru fjarstaddir. Þeir eru á þingi Sameinuðu þjóðanna þar sem þeir sem formenn sinna nefnda, ráðherranefnda á norrænum vettvangi, áttu að mæta og flytja þar ræður. Þeir koma heim um eða eftir miðja viku (Gripið fram í.) --- ég hef ekki nákvæma tímasetningu á því hvenær þeir koma en ég mun að sjálfsögðu kanna það þegar fundur þingflokksformanna hefur verið haldinn og samráð um það hvenær umræður gætu farið fram.
    Auðvitað eru allir ráðherrarnir með ýmis skyldustörf á sinni hendi sem þeir verða að sinna, einnig á erlendum vettvangi og það verður að sjálfsögðu skoðað hvernig þau skyldustörf koma inn í tímasetningu um umræðu um vantraust. Hingað til hefur ekkert staðið á því að við settumst niður til að skoða þessi mál, einfaldlega eins og þingflokksformenn vita þá hefur ekki verið boðaður fundur til þess að fjalla um hvenær umræða um vantrauststillögu skuli fara fram.