Forgangsröð kennslu erlendra tungumála

10. fundur
Mánudaginn 17. október 1994, kl. 15:47:43 (444)


[15:47]
     Ingi Björn Albertsson :
    Hæstv. forseti. Ég kannast við þessa umræðu á Alþingi. Ég hef flutt um það tillögu í tví- eða þrígang að enska verði gerð að fyrsta tungumálinu en einhverra hluta vega hefur sú tillaga aldrei komist út úr hv. menntmn. Þess vegna fagna ég auðvitað þeirri niðurstöðu sem sú nefnd um menntastefnu hefur komist að. Hún hefur fallist á þá hugmynd mína að enskan ætti að vera fyrsta tungumálið.
    Fólk talar um að það séu engin rök fyrir því að enskan eigi að vera fyrsta tungumálið. Það eru mjög sterk rök fyrir því. Rökin eru fyrst og fremst þau að í skólum landsins á auðvitað að kenna fyrst og fremst það sem kemur nemendunum að notum þegar þeir koma út úr skólanum. Það hlýtur að vera rauði þráðurinn í gegnum námið að kenna þar hagnýta hluti. Ég held að enginn deili um það að enskan hefur miklu meira notagildi en nokkurn tíma danskan þegar komið er út í hinn stóra heim. Rökin fyrir því eru náttúrlega mjög sterk. Ekki þarf annað en líta til viðskiptalífsins eða almenns notagildis eða fara hreinlega til Danmerkur þar sem við sjáum fjöldann allan af Íslendingum tala ensku við Dani. Rökin fyrir því að enskan sé fyrsta tungumál eru því mjög sterk.