Húsnæðisaðstaða Fjölbrautaskólans við Ármúla

10. fundur
Mánudaginn 17. október 1994, kl. 16:02:20 (451)

[16:02]
     Fyrirspyrjandi (Finnur Ingólfsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. menntmrh. fyrir svörin. Þau því leysa miður mjög lítið úr þeim erfiðleikum sem þarna blasa við, bæði hjá nemendum og kennurum. Ég tek undir það með hv. þm. Svavari Gestssyni að það er einmitt núna mikilvægt að menntamálayfirvöld, menntmrn. og borgaryfirvöld í Reykjavík, setjist niður til þess að gera uppbyggingar- og viðhaldsáætlanir einmitt fyrir þessa skóla. Það er auðvitað ekki bara Fjölbrautaskólinn í Ármúla sem býr við þröngan kost þó ég haldi að það sé nú kannski hvergi eins slæmt. En í heimsóknum mínum í þessa skóla á undanförnum árum hef ég orðið var við að það er mjög slæmt ástand víða.
    Þegar ég segi að það væri mjög skynsamlegt fyrir menntmrn. og borgaryfirvöld í Reykjavík að setjast nú niður og reyna að ná samstöðu um slíka uppbyggingaráætlun þá segi ég það vegna þess að ég hef ástæðu til að ætla að það sé betra fyrir menntmrn. nú að eiga við borgaryfirvöld í Reykjavík um þessi efni en áður þar sem nú er nýr meiri hluti við stjórn Reykjavíkurborgar og annar meiri hluti, meiri hluti sem hefur aðrar áherslur heldur en sá meiri hluti sem var þar áður.