Húsnæðisaðstaða Fjölbrautaskólans við Ármúla

10. fundur
Mánudaginn 17. október 1994, kl. 16:04:05 (452)

[16:04]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Það má vel vera að það verði eitthvað þægilegra að eiga við núverandi borgaryfirvöld. Ég treysti mér ekki til að spá um það á þessu stigi málsins ( Gripið fram í: Láttu á það reyna.) en sjálfsagt að kanna það. Sannleikurinn er sá að það hefur kannski skort á skilning á þörfinni fyrir uppbyggingu framhaldsskólakerfisins hér í Reykjavík, ekki endilega hjá borgaryfirvöldum í Reykjavík heldur kannski hér í þinginu, hversu brýn þörf er einmitt hér í Reykjavík á uppbyggingu framhaldsskólanna. Það hefur verið bent á það að mikill fjöldi nemenda kom einmitt til Reykjavíkur utan af landi og sumir hafa þóst eygja þá einföldu lausn að byggja bara meira upp af framhaldsskólum úti á landi þá muni þessi þörf hér minnka. Ég held að það séu ekki. Það eru fleiri og aðrar ástæður sem ráða þessari ásókn nemenda utan af landi hingað til Reykjavíkur.
    Ég bendi á að næsta viðfangsefni í uppbyggingu framhaldsskóla hér í Reykjavík er Borgarholtsskólinn sem eru að hefjast framkvæmdir við. Það verður fyrst og fremst verknámsskóli. Það er dýr bygging þannig að ég er ekki mjög bjartsýnn á að það takist að fá verulega fjármuni til annarra viðfangsefna meðan sú framkvæmd er hvað fjárfrekust.
    Það liggja þegar fyrir nokkrar áætlanir um þörf á uppbyggingu og endurbótum framhaldsskólanna yfirleitt í landinu. Ég hef nefnt það áður að ég tel fulla þörf á því að leggja slíka áætlun fyrir Alþingi. Það er ekki síður þörf á að leggja slíka áætlun fyrir Alþingi heldur en vegáætlun og hafnaáætlun svo að ég taki bara dæmi um áætlanir sem Alþingi samþykkir.