Lánsfjáraukalög 1994

12. fundur
Mánudaginn 17. október 1994, kl. 16:54:59 (459)

[16:54]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Afgreiðsla þessa máls, sem við erum að ræða, er nokkuð óvenjuleg og það er eitt aðalerindi mitt upp í þennan ræðustól að gera athugasemd við þennan málarekstur. Mér finnst það óeðlileg málsmeðferð að lánsfjáraukalög séu afgreidd áður en fjáraukalög hafa verið afgreidd, þ.e. við veitum fyrst heimild til að taka lán áður en búið er að samþykkja þau atriði sem búið er að taka lánin til að greiða. Mér finnst þetta ekki eðlileg málsmeðferð og ég vil koma því á framfæri hér.
    Hitt er annað mál að við þingmenn höfum mikinn skilning á þeim vanda sem uppi er í húsbréfakerfin og mér hefði þótt eðlilegt að taka það mál út úr og veita því forgang en láta 1. gr. þessa frv. bíða

þannig að fjáraukalögin hefðu verið afgreidd fyrst og síðan lánsfjáraukalög. En ákveðið var að gera þetta svona, að afgreiða þetta frv., fyrst og fremst vegna húsbréfakerfisins svo að menn fari ekki að skilja þetta í sundur, en ég ítreka það að mér finnst þetta ekki eðlilegt.
    Menn hafa einkum rætt um 2. gr. þessa frv., þ.e. það sem snýr að húsbréfakerfinu. Það er ekki að undra því að nefndin eyddi allmiklum tíma í að fara yfir þau mál og þar kom margt mjög athyglisvert fram sem enn einu sinni segir okkur að við þurfum að skoða mjög vel það ástand sem ríkir nú í húsnæðismálum. Það er eins og menn hafi varpað öndinni léttara eftir að húsbréfakerfið tók til starfa og eftir að samið var um það að efla félagslega húsnæðiskerfið. Mjög athyglisverðar upplýsingar komu fram á fundi nefndarinnar í morgun um það að svo virtist sem það væri að draga úr umsóknum til byggingar félagslegra íbúða. Mér þykir það mjög merkileg tíðindi ef staðan í félagslega húsbréfakerfinu er orðin með þeim hætti úti á landi, þetta virðist sérstaklega gilda um landsbyggðina, að menn séu að nokkru leyti búnir að fullnægja eftirspurninni þar eða sem sagt, þar sé farið að draga úr eftirspurninni. En auðvitað getur margt annað spilað þar inn í eins og ástandið hjá fólki, þ.e. að það ráði ekki einu sinni við að kaupa félagslegar íbúðir.
    Síðan er það millihópurinn sem lendir á milli þessara kerfa, félagslega húsnæðiskerfisins og húsbréfakerfisins og síðan hinir vaxandi erfiðleikar í húsbréfakerfinu sem m.a. koma fram í miklum vanskilum þar. Þetta þurfum við allt að skoða í samhengi og kanna til hvaða ráðstafana þarf að grípa. Það er líka athyglisvert að um leið og eftirspurnin eftir húsbréfum fer vaxandi aukast vanskilin. Maður hefði kannski haldið að þetta færi saman en það er ekki þar með sagt að það sé sami hópurinn sem á í hlut. Einhverjir telja sig ráða við það að taka húsbréfalán meðan aðrir eru í miklum greiðsluerfiðleikum.
    Ekki er ástæða til þess að fara mjög mörgum orðum um þetta. Við ræddum húsbréfakerfið rækilega við 1. umr. og margt hefur skýrst í því máli en ég minni á 1. gr. þessa frv. sem menn hafa ekki veitt jafnmikla athygli í umræðunni. Þar er auðvitað um það að ræða að verið er að sækja um 1.250 millj. kr. aukaheimild vegna efnahagsstjórnunar ríkisstjórnarinnar og vegna þeirrar umframeyðslu sem átt hefur sér stað hjá ríkissjóði. Ég minni enn á það hversu illa grundaðar þær forsendur eru sem ríkisstjórnin byggir á og byggði á í áætlunum þessa árs. Þar er um að ræða áform sem augljóst mátti vera að mundu ekki ganga fram eins og sparnaður í heilbrigðiskerfinu sem er ekki hægt að ná fram með þessum hætti enda hafa menn gefist upp við það. En hér er líka um að ræða ýmsar ákvarðanir sem hafa verið teknar og ýmiss konar umframútgjöld sem við munum ræða betur þegar kemur að fjáraukalögunum.
    Ekki er ástæða til þess að ræða þetta nánar að sinni. Við kvennalistakonur munum sitja hjá við 1. gr. frv., enda ber ríkisstjórnin ein ábyrgð á þeirri eyðslu sem þar er að finna umfram fjárlög en við teljum sjálfsagt að styðja þessa heimild til húsbréfakerfisins. Það er ljóst að þar er við ákveðinn vanda að stríða sem verður að leysa þó eins og ég sagði áðan þurfi að skoða þessi húsnæðismál öll í heild og við að átta okkur betur á því hvernig ástandið er í raun og veru.