Lánsfjáraukalög 1994

12. fundur
Mánudaginn 17. október 1994, kl. 17:01:17 (460)

[17:01]
     Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Rannveig Guðmundsdóttir) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ástæða þess að ég kem upp í andsvari er athugasemd hv. þm. Kristínar Ástgeirsdóttur um að óeðlilegt væri að afgreiða lánsfjáraukalög með 1. gr. inni miðað við að við höfum ekki enn þá samþykkt fjáraukalögin. Vissulega er þetta athugasemd sem getur alveg átt rétt á sér sem slík. Við ræddum þetta í efh.- og viðskn. að 1. gr. lánsfjáraukalaga er um það að hækka heimild fyrir ríkissjóð að vera með lántökur um 1.250 millj. kr. og það er vegna þess að gjöld umfram tekjur verða um 1.250 kr. meiri en áætlað var í fjárlögum. Þar sem við stjórnarliðar stöndum að þessum fjáraukalögum og það var örlítið rætt með hvaða hætti afgreiðsla efh.- og viðskn. gæti orðið ef við hefðum sleppt að afgreiða 1. gr. þá var það niðurstaða okkar að gera það með þessum hætti. Þetta er því ekki eitthvað sem var látið rekast, við skoðuðum þetta mál og stöndum að sjálfsögðu að þessari heimild til lánsfjárlaga um breytingu upp á 1.250 millj. enda munum við standa að þessari ákvörðun í fjáraukalögum. Ég vildi gjarnan láta þetta koma fram vegna athugasemdanna.