Lánsfjáraukalög 1994

12. fundur
Mánudaginn 17. október 1994, kl. 17:04:47 (463)

[17:04]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég tel í sjálfu sér ekki sæta neinum tíðindum þótt hæstv. ríkisstjórn vilji afgreiða hlutina í öfugri röð. Það hefur reyndar yfirleitt verið þannig en það er hins vegar athyglisvert að hún skuli ekki vera tilbúin til þess að fallast á þessa litlu tæknilegu ábendingu sem fram komu hjá hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur sem er örugglega alveg rétt ábending í sjálfu sér en stjórnarliðið treystir sér ekki til að fallast á hana þó að öll rök mæli með því að á þessi sjónarmið sé fallist sem fram kom í ræðu hv. 15. þm. Reykv.
    Ég tel sérstaka ástæðu til þess að þakka fyrir það að hæstv. fjmrh. skuli vera á landinu. Það er alveg sérstakt fagnaðarefni að hafa einn ráðherra og ber auðvitað að veita honum alveg sérstaka --- já og hann stendur upp og hneigir sig --- viðurkenningu fyrir það að hann skuli sýna Alþingi og þjóðinni svo mikinn sóma að vera viðstaddur þegar verið er að ræða þetta mál. Ég kann ekki við að bera frekara lof á hæstv. ráðherra fyrir þetta afrek hans en miðað við aðra ráðherra þá er hann alveg sérstakur afreksmaður og ber að halda því til haga. Sérstaklega er þetta athyglisvert í samanburði við ráðherra Alþfl. því þeir eru aldrei hérna en þeir ku vera fjórir ráðherrar Alþfl. Einu sinni voru þeir fimm, sá fimmti er hættur, sá sem var og situr nú hér sem óbreyttur þingmaður úti í sal en hinir fjórir koma aldrei hérna. Það er í sjálfu sér alveg ástæðulaust að sakna þeirra neitt sérstaklega, ég viðurkenni það, nema í þessu máli þar sem hefði verið full ástæða til þess að hafa hæstv. félmrh. því þetta eru nú einu sinni húsnæðismál sem við erum að tala um fyrst og fremst. Hér er í raun og veru verið að tala um það hvernig á að fjármagna húsnæðiskerfið. Hér er verið að tala um vanda húsnæðiskerfisins. Hér er verið að tala um það að húsbréfakerfið stendur þannig að þar er um að ræða stórkostleg vanskil. Hjá mörgum þúsundum skuldara er um að ræða vanskil og yfirvofandi nauðungaruppboð þannig að hér er auðvitað fyrst og fremst um húsnæðismál og vanda húsbyggjenda í landinu sem við erum að ræða. En hæstv. félmrh., þó ég hafi óskað eftir því við fyrri umræðuna að hann yrði í dag, sér ekki ástæðu til þess að gera ráðstafanir til þess að svara fyrir málið, annaðhvort sjálfur eða senda annan alþýðuflokksmann sem hefði með þetta mál að gera þó ég verði að segja alveg eins og er að ég sé ekki í hendi mér hver það væri úr þeim hópi sem gæti veitt nein brúkleg svör í þessum málum. ( JSG: Það væri helst fyrrv. ráðherra.) Auðvitað ber að þakka það að hafa hér í salnum fyrrv. félmrh., a.m.k. einn ef ekki tvo, til þess að ræða þessi mál þegar mikið liggur við en gallinn er bara sá að enginn þeirra ber ábyrgð á þeirri umræðu sem fer fram einmitt nú, það er í raun og veru vandinn í þessu máli. ( JGS: Kannski á klúðrinu.)
    Ég tel ástæðu til þess að harma þetta alveg sérstaklega í fullri alvöru, hæstv. forseti, vegna þess að hér er fyrst og fremst um að ræða húsnæðismál frekar en allt annað. Það er náttúrlega engin hemja að ráðherrar Alþfl. skuli ekki láta sjá sig í þessari umræðu. Sérstaklega kannski líka vegna þess að eftir að umræðan hófst og málinu var dreift í þinginu þá ákvað hæstv. félmrh. að hækka vextina með því að leggja á þetta ábyrgðargjald. Það er auðvitað ekkert annað en vaxtahækkun í raun og veru.
    Það er líka alvarlegt að hæstv. félmrh. skuli vera fjarverandi vegna þess sem blasir við í húsnæðismálum á næstu mánuðum vegna þess að menn eru núna að tala um það að um leið og losnar um stífluna hér alveg á næstunni þá verði stórfelld afföll, afföll muni verulega aukast í þessu kerfi. Mjög verulega. Þannig að það er auðvitað fyrir neðan allar hellur að þingið skuli ræða þetta mál án þess að hæstv. félmrh. sé viðstaddur eða einhver til þess að svara fyrir hann.
    Þetta vil ég gagnrýna hér, hæstv. forseti, við þær aðstæður sem nú eru uppi, það er verið að tala um aukin afföll á næstunni, það er verið að tala um hækkandi vexti, ekki lækkandi vexti heldur hækkandi vexti í landinu. Stolt ríkisstjórnarinnar, rauði þráðurinn í gegnum þessa bláu bók, vaxtalækkun, er gufað upp og menn eru að horfa framan í hækkandi vexti á næstu vikum og mánuðum. Þetta mun auðvitað aðallega bitna á því fólki sem núna stendur frammi fyrir stórkostlegum vanda, m.a. í húsbréfakerfinu, þar sem um það er að ræða að fólk ræður ekki við að standa í skilum, m.a. vegna þess hvernig ríkisstjórnin hefur hagað sinni pólitísku stefnu. Það er auðvitað satt að segja alveg kostulegt að horfa á þetta kerfi, hæstv. forseti, við núverandi aðstæður þar sem það kemur í ljós að Seðlabankinn liggur með ríkispappíra upp á 25.000 millj. kr. Hver er þessi frjálsi markaður, frjálsi, göfugi samkeppnismarkaður sem hæstv. fjmrh. er svo stoltur af þegar aðstaðan er þannig að aðalleikarinn á þessu sviði er ekki í raun og veru hinn einstaki verðbréfakaupandi úti í bæ? Nei, það er Seðlabankinn sem er þarna með 25.000 millj. sem hann liggur með í ríkispappírum. Og fátt sýnir í raun og veru betur fánýti þeirrar stefnu sem ríkisstjórnin hefur rekið en einmitt þessi tala vegna þess að hún kemur upp um það að stefnan í verðbréfamálum eins og hún hefur verið rekin af núv. ríkisstjórn stenst ekki. Það kerfi er algjörlega hrunið og sprungið í loft upp.

    Ég tel þess vegna að það hefði verið ástæða til þess að ræða hér mikið frekar um þessa hluti, annars vegar upphleðsluna á þessum ríkispappírum í Seðlabankanum, hins vegar um yfirvofandi vaxtahækkanir og yfirvofandi stórhækkandi afföll. Þessa hluti hefði þurft að ræða miklu nánar. Hitt hefði auðvitað þurft að ræða líka, hæstv. forseti, hvað á að gera gagnvart vanskilunum. Hvað á að gera gagnvart því fólki sem nú er að missa íbúðirnar sínar á nauðungaruppboðum? Hvað á að gera gagnvart því fólki?
    Á síðasta fundi hér við 1. umr. málsins þá ræddum við dálítið hvað ætti að gera í þeim efnum. Þá benti ég á það mál sem við tveir þingmenn Alþb. flytjum hér og gengur í raun og veru út á það að sett verði þak á greiðslubyrði þannig að það sem fer umfram tiltekið hlutfall af launum á hverjum tíma verði flutt aftur fyrir í lánasamningum, rétt eins og var samkvæmt þeim húsnæðislögum sem í gildi voru og var gerður samningur um á sínum tíma. Sett undir forustu, má segja, Alexanders Stefánssonar, þáv. félmrh., með stuðningi allra flokka. Þá voru þessi lög sett á sínum tíma og þóttu mjög mikill ávinningur. Það ber að taka það fram enn og aftur úr þessum ræðustól að Kvennalistinn átti meira að segja aðild að því máli sem hefur þó passað sig á því að vera ekki mikið að skipta sér af svona leiðindamálum í seinni tíð en hann stóð sig afar vel í því að styðja af kappi þessa greiðslujöfnun húsnæðislána á sínum tíma og á heiður skilið fyrir það og átti reyndar talsverðan hlut í því máli, ef ég man rétt, talsverðan hlut í því máli, hv. þáv. þm. Kristín Halldórsdóttir. En því hefur ekki verið svarað í þessari umræðu hvað á að gera gagnvart fólkinu sem er að missa íbúðirnar sínar út af vanskilum. Hvað á að gera? Auðvitað hefði hæstv. félmrh. átt að svara þeirri spurningu. Mér fannst hæstv. fjmrh. í raun og veru taka illa þeim hugmyndum sem ég var með og við alþýðubandalagsmenn í þeim efnum, fyrst og fremst með þeim rökum að pappírar til eins langs tíma og við vorum að tala um yrðu illa seljanlegir og afföllin af þeim yrðu mjög mikil. Út af fyrir sig getur vel verið að það sé rétt en það breytir hins vegar ekki því að það verður að koma til móts við þetta fólk. Það er í raun og veru einn alvarlegasti vandi íslenskra félags- og efnahagsmála í dag, það er ástandið hjá því fólki sem gekk í gegnum greiðslumat, fékk niðurstöðu sem menn töldu brúklega, niðurstöðu sem fólkið trúði að gæti gengið upp, gat svo ekki gengið upp af því að menn misstu yfirborganir, misstu vinnu og það var verulegur samdráttur í tekjum, auk þess sem einmitt þetta fólk lenti í þeim skattahækkunum sem núv. ríkisstjórn hefur beitt sér fyrir.
    Af þeim ástæðum er það, hæstv. forseti, sem þetta svið hefði auðvitað átt að ræða í heild og ég tel ástæðu til að spyrja hæstv. fjmrh. hvað hann gerir ráð fyrir að vextirnir hækki mikið á næstunni. Ég veit að hæstv. fjmrh. er ekki markaðurinn því markaðurinn er ekki kosinn á þing, ráðherrann hefur sagt það. ( JGS: En ígildi hans.) En hæstv. fjmrh. er þó langnæstur því allra manna hér að vera eiginlega hálfgerður markaður þannig séð ( JGS: Markaðsígildi.), markaðsígildi. Hvað gerir hæstv. fjmrh. ráð fyrir að vextirnir hækki mikið á næstunni? Og hvað reikna menn í raun og veru með miklum afföllum á næstunni af húsbréfum eftir að losnar um þessa stíflu? Það væri mjög æskilegt að fá svör við því áður en þetta undarlega frv. verður afgreitt úr þessari virðulegu stofnun.