Lánsfjáraukalög 1994

12. fundur
Mánudaginn 17. október 1994, kl. 17:19:17 (465)

[17:19]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. 4. þm. Reykn. fyrir það þegar hún lendir aftur og aftur í því hlutverki að þurfa að svara fyrir alla ráðherra Alþfl. og gerir það myndarlega en auðvitað teldum við að þeir ættu að sinna sínum embættisskyldum með því að mæta hér, þetta fólk.
    Vandinn í sambandi við Seðlabankann í dag er bersýnilega sá að hann hefur ákveðið að hætta að kaupa þessa pappíra. Það er drepið í hverja smugu í Seðlabankanum með þessum pappírum núna, spariskírteinum ríkissjóðs og öðrum ríkispappírum þannig að Seðlabankinn getur ekki tekið við meiru. Ráðherrarnir hafa verið að sturta þessu yfir í Seðlabankapeningageymslurnar undanfarna mánuði. Sumir hafa nefnt hjólbörur í því sambandi sem hafa verið notaðar til þess að keyra þessa pappíra úr Arnarhvoli og yfir götuna, yfir í svarta húsið í Seðlabankanum og staðreyndin er auðvitað sú að Seðlabankinn getur í raun og veru engu bætt við. Þess vegna er það auðvitað alveg ljóst að það er yfirvofandi vaxtahækkun í landinu ef svo heldur fram sem horfir og þar af leiðandi og í tengslum við það afföll af húsbréfum, aukin afföll, miðað við það sem verið hefur þegar þessi nýi húsbréfaflokkur sem menn eru að tala um kemur á markað. Þannig í raun og veru hrynur grunnurinn undir því sem ríkisstjórnin hefur kallað sína efnahagsstefnu og ætlar núna að reyna að keyra út til kjósenda í landinu.