Lánsfjáraukalög 1994

12. fundur
Mánudaginn 17. október 1994, kl. 17:20:01 (466)

[17:20]
     Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Rannveig Guðmundsdóttir) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég fullyrði að félmrh., ráðherra Alþfl., mun mæta hér hvenær sem er og þegar þörf er á en það eru viðurkennd forföll þegar viðkomandi er erlendis. Ég árétta þetta.
    Ég var í andsvari mínu áður að geta þess að eðli húsbréfanna sem markaðsbréfa er það að þegar mikil eftirspurn yrði haldi fólk örlítið að sér höndum og hinkri um stund við fjárfestingu og að verða sér út um húsbréf og þegar afföll minnkuðu væri aftur farið af stað. Þetta er eðli þessara bréfa.
    Því miður erum við Íslendingar óvanir þessu og gættum ekki að fylgja þessu eðlilega lögmáli. Nú hefur bæði þessi markaður orðið stöðugri og eins hefur það komið fram varðandi húsnæðismál á fundi efh.- og viðskn. í dag að það er ekki neitt núna í pípunum sem bendir til að þær ófarir sem hv. 9. þm. spáir gangi eftir.