Lánsfjáraukalög 1994

12. fundur
Mánudaginn 17. október 1994, kl. 17:24:12 (469)

[17:24]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til að munnhöggvast mikið við hv. þm. um vaxtamál. Þar gerist það stundum að markaðurinn kemur til með að eiga síðasta orðið.
    Það hefur mjög margt verið að gerast á Verðbréfaþingi og á fjármagnsmarkaði að undanförnu sem vert er að íhuga gaumgæfilega. Þar á meðal hefur það gerst, sem ég held að hv. þm. viti um, að u.þ.b. 8 milljarðar munu flytjast út á þessu ári í peningum til fjárfestinga erlendis. Það er í sjálfu sér ekki við því að segja. Það hagar þannig til að ýmsir þurfa að festa fé erlendis af öryggisástæðum, t.d. vegna svokallaðra framvirkra samninga. Þessi fjármagnsflutningur mettast við ákveðið stig. En það gerist ekki nema vextir hér á landi séu svipaðir vöxtum í nágrannalöndunum. Til lengri tíma litið kemur það þeim vel sem vilja lága vexti ef íslenski markaðurinn tengist þeim erlenda. Það er því ekki hægt að kvíða neinu í því sambandi.
    Mér finnst ástæða til að nefna það hér að þegar talað er um að almenningur verði illa úti vegna vaxtahækkana, eða fari vel út úr vaxtalækkunum, þá eru þar fyrst og fremst á ferðinni vaxtabreytingar í bankakerfinu þar sem fólk tekur almennt lán. Þær breytingar sem ættu að geta orðið í bankakerfinu eru til lækkunar eins og mjög glögglega kom fram í umræðu fyrir helgi þegar einn af þingmönnum Framsfl., hv. þm. Guðni Ágústsson, bankaráðsmaður Búnaðarbankans og helsti sérfræðingur Framsfl. í bankavöxtum, lýsti því yfir í umræðum að það mætti búast við lækkun vaxta í bankakerfinu. Þess vegna held ég og ég vil taka undir það sem hann sagði að ekki sé neinu að kvíða í framtíðinni fyrir þá sem eiga viðskipti við banka og þurfa á því að halda að vextir lækki í bankakerfinu.