Lánsfjáraukalög 1994

12. fundur
Mánudaginn 17. október 1994, kl. 17:36:04 (472)

[17:36]
     Finnur Ingólfsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er alveg rétt sem fram kom hjá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur áðan að Seðlabankinn varaði við 40 ára bréfum þar sem búast mætti við að afföllin yrðu mjög mikil. Nú er það svo að hvernig sem menn líta á þetta fyrirkomulag þá virðist húsbréfakerfið því miður vera að hrynja. Það er ekki að gerast akkúrat í dag eða fyrir einhverjum vikum síðan. Það sem hefur verið að gerast í tíð þessarar ríkisstjórnar er að tekjur hafa verið að skerðast hjá almenningi vegna mikillar skattálagninar, vegna þjónustugjalda sem ríkisstjórnin hefur lagt á almenning, vegna minni atvinnu og þar fram eftir götunum.
    Nú er það svo að hæstv. fyrrv. félmrh., hv. 12. þm. Reykv., Jóhanna Sigurðardóttir, sat í þessari ríkisstjórn. Og nú þegar við blasir að ávöxtunarkrafan fer stighækkandi á degi hverjum þá er fróðlegt vita, af því að hv. þm. er nýstigin upp úr ráðherrastólnum, hvernig hv. þm. hefði viljað bregðast við undir þessum kringumstæðum sem núna eru. Hvernig vildi hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir bregðast við, væri hún enn í ríkisstjórninni, þeim greiðsluerfiðleikum sem fólk á í við Húsnæðisstofnun ríkisins?
    Það væri fróðlegt að fá svör við þessu ekki síst í ljósi þess að þingmenn Alþfl. fluttu þáltill. ekki alls fyrir löngu um greiðsluaðlögun sem ekki var tekin fyrir í þinginu að öðru leyti en því að stjórnarandstaðan kom því inn í þingmál hjá sér og fékk greitt um það atkvæði hér í þinginu sem var fellt af ríkisstjórnarflokkunum og þáv. hæstv. félmrh., núv. hv. þm., Jóhönnu Sigurðardóttur. Það væri þess vegna fróðlegt að fá að vita með hvaða hætti þingmaðurinn vill bregðast við þeim erfiðleikum sem nú eru hjá fólki

undir þessum kringumstæðum.