Lánsfjáraukalög 1994

12. fundur
Mánudaginn 17. október 1994, kl. 17:38:35 (473)

[17:38]
     Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég skal fúslega svara því. Varðandi það sem hv. þm. nefndi um greiðsluaðlögun þá var ríkisstjórnin að vinna að því máli meðan ég sat í stóli félmrh. Ég held að það sé mjög brýnt mál. Ég veit ekki annað og hef lesið það í fjölmiðlum að núv. hæstv. félmrh. sé að vinna að því máli áfram þannig að ég vænti þess að frv. um greiðsluaðlögun komi fram á þessu þingi. Á það legg ég áherslu og mundi gera ef ég sæti nú í stóli félmrh.
    Varðandi önnur atriði sem ég vil nefna hef ég margítrekað í umræðunni að ég tel nauðsynlegt að víkka út þá heimild til skuldbreytinga sem var fyrir ári síðan sett fram í samvinnu við lánastofnanir. Ég tel nauðsynlegt við þessar aðstæður að skoða það. Ég hef nefnt það líka en tel óraunhæfa tillögu sem fjmrh. nefnir en ég tel mjög brýnt að skoða það af fullri alvöru að það sé reynt að hækka lánshlutfallið hjá þeim sem kaupa sína fyrstu íbúð og þó ekki væri farið nema upp í 70%, þá teldi ég það breyta miklu. Það þýðir aukin útgáfa á húsbréfum. Það þýðir ekki að segja eins og fjmrh. að það sé hægt að gera það innan núverandi útgáfu á húsbréfum vegna þess að þá erum við bara lækka lánshlutfallið hjá öðrum. Það getur vel verið að það þurfi að bíða eitthvað með það en það hlýtur að vera næsta skref þegar svigrúm skapast að hækka lánshlutfallið í húsbréfakerfinu. Ég nefni þessi tvö mál, þ.e. greiðsluaðlögunin og víkka út þá heimild sem er núna til staðar til skuldbreytinga í samvinnu við lánastofnanir. Ég er alveg sannfærð um að það gæti breytt miklu.
    Síðan vísa ég því á bug sem hv. þm. nefndi að húsbréfakerfið sem slíkt sé að hrynja. Það hafa verið greiðsluerfiðeikar í þjóðfélaginu þar sem við búum við atvinnuleysi, minni yfirvinnu hjá fólki og það sýnir sig að þeir erfiðleikar sem fram koma þarna eru fyrst og fremst út af því. Og að síðustu nefni ég það sem mér finnst að menn verði að skoða í þessu sambandi að Húsnæðisstofnun er með þennan sveigjanleika að hún fer ekki með vanskilin í lögfræðing fyrr en eftir 4 mánuði þannig að fólk hafði svigrúm til þess að greiða sínar skuldir annars staðar. Það er því ósanngjarnt að segja hér að húsbréfakerfið sé að hrynja af þeim vanskilum sem uppi eru þessa stundina.