Lánsfjáraukalög 1994

12. fundur
Mánudaginn 17. október 1994, kl. 17:44:53 (476)

[17:44]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Í raun þarf ég ekki að svara fyrri fsp. frá hv. þm., hv. þm. hefur eiginlega svarað henni sjálfur því að núv. félmrh. hefur að því er ég best veit tekið upp þráðinn þar sem frá var horfið og það er til skoðunar nú hvort og hvernig hægt sé að taka á svokallaðri greiðsluaðlögun. Það er ekki einfalt mál og reyndar mjög flókið.
    Í öðru lagi á ég von á því að hæstv. félmrh. skoði skuldbindingamálið við hliðina á hugmynd sinni um 40 ára bréf sem ég hugsa að séu annmarkar á að gefa út af markaðslegum ástæðum. Því miður get ég ekki svarað því frekar hér og nú enda er það til skoðunar í félmrn.
    Varðandi sambandið á milli skammtíma- og langtímabréfa á fjármagnsmarkaðnum þá er það alþekkt í húsbréfakerfinu að bréfin eru til í skúffum sem svo eru kallaðar, svokölluð skúffubréf, og þau koma inn á markaðinn við tilteknar aðstæður og ég get ekkert frekar en annar dæmt um það hvenær þær aðstæður eru uppi. En hugsum okkur það að von sé á því að skammtímapappírar sem ganga kaupum og sölum, t.d. sex mánaða til tveggja ára pappírar, ef það er von á einhverri smáhækkun er ekkert óeðlilegt að menn komi upp með skúffubréf á markaðinn og reyni að afla frekar skuldbindinga til skamms tíma upp á þá von að geta selt þau aftur innan tíðar ef vextir skyldu hækka á skammtímabréfum. Um þetta get ég ekkert sagt. Þetta eru spekúlsjónir sem eiga sér stað í öllum þjóðfélögum og það er aðeins eins og stundum hefur verið sagt hér áður í þessum umræðum, það er markaðurinn og kannski væntingarnar um það sem gerist á honum sem ráða því þegar fólk tekur upp á þessu. Það er hárrétt sem hér hefur verið sagt að útgáfa bréfanna er ekki komin og gefur ekki tilefni til þessa. Að allra síðustu vil ég geta þess að mér hefur sýnst að lífeyrissjóðirnir vera nokkuð daufir kaupendur þessara bréfa og nokkurra annarra um þessar mundir.