Lánsfjáraukalög 1994

12. fundur
Mánudaginn 17. október 1994, kl. 18:08:45 (478)

[18:08]
     Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er auðvitað margt sem væri hægt að tína til til þess að svara hv. síðasta ræðumanni. Hann ræddi mikið um afföllin í húsbréfakerfinu. Þau voru vissulega mikil á sínum tíma þegar við komum á greiðsluerfiðleikalánaflokknum. En það er eins og hv. þm. loki alltaf eyrunum fyrir því hver er skýringin á því. Hverjir voru það sem voru að þvælast fyrir því aftur og aftur hér í þingsölunum að loka 86-kerfinu? Við vorum einfaldlega að fjármagna tvö kerfi, auk þess að koma á þessum greiðsluerfiðleikalánaflokki, sem var meginskýringin á þessum afföllum. Það er eins og hv. þm. gleymi því líka að í þeim kerfum sem við höfum búið við á undan þessu voru alltaf afföll. Þau voru að vísu ekki sýnileg. Kallar hv. þm. það ekki afföll þegar fólk þarf aftur og aftur að vera að greiða lántökugjöld og vanskilakostnað og lögfræðikostnað vegna síendurtekinna skammtímalána sem meira og minna fóru í lögfræðiinnheimtu hjá bönkunum? Auðvitað er það ekkert annað en afföll.
    Það gleymist líka varðandi greiðsluerfiðleikalán og nýbyggingalán, ef um húsbréf er að ræða sem leitar út á markað, að þá kemur það inn í vaxtabótakerfið og er hluti af því sem má draga þar frá.
    Varðandi innri fjármögnun þá er auðvitað innri fjármögnun í þessu kerfi. Ég veit ekki hvað hún er mikil þessa dagana, en síðast þegar ég skoðaði það þá var það yfir 50%. Það er auðvitað ekkert annað en innri fjármögnun þegar húsbréfin ganga á milli kaupenda og seljenda án þess að fara á markaðinn.
    Varðandi það kerfi sem hv. þm. vill viðhalda þá má hann ekki gleyma því að það hefði kostað okkur fleiri tugi milljarða að halda uppi því kerfi og við vorum með skýrslu frá Ríkisendurskoðun sem sagði að það kerfi væri gjaldþrota. Það hefði fólk þurft að borga með hærri sköttum, alveg örugglega, ef við hefðum átt að viðhalda því kerfi. Málið er því ekki eins einfalt og þingmaðurinn vill láta það líta út fyrir að vera. (Forseti hringir.)
    Ég hef hér tilgreint hvað það er sem ég mundi vilja beita mér fyrir varðandi það að koma til móts við þá sem eru í greiðsluerfiðleikum (Forseti hringir.) þannig að mínar tillögur í þessu efni liggja fyrir.
    ( Forseti (GunnS) : Ég verð að biðja hv. þm. að ljúka máli sínu.)