Afnám tvísköttunar af lífeyrisgreiðslum

14. fundur
Þriðjudaginn 18. október 1994, kl. 14:33:24 (501)

[14:33]

     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. síðasti ræðumaður var að finna að því að við alþýðubandalagsmenn værum að benda á hvernig þetta mál er vaxið og hvernig Alþingi hefur tekið á þessu máli á fyrri stigum. Ætli það hafi ekki verið ástæða til þess að gefa fjmrh. sem nú starfar færi á því að framfylgja ályktun Alþingis í þessu máli um könnun á málinu og að undirbúa lagabreytingar til að leggja fyrir þingið? Ætli menn hafi ekki átt von á því að ráðherrann stæði við það að framfylgja þessu máli? En það hefur bara ekki verið gert. Ályktun þingsins í málinu liggur fyrir og eiga menn að telja það sjálfsagt og eðlilegt að þingmenn úr flokki fjmrh. flytji sama málið og séu að biðja Alþingi að segja álit sitt á ný? Það má kannski segja að góð vísa sé aldrei of oft kveðin en auðvitað verða menn að beina sjónum að þeirri pólitísku fyrirstöðu sem er greinilega í málinu. Þetta er nú einu sinni ríkisstjórn sem styðst við meiri hluta á Alþingi og það er ekki bara Sjálfstfl. heldur líka Alþfl. sem stendur að stjórninni og ber fulla ábyrgð á þeirri stöðu sem þetta mál er í.
    Ég held að það sé nauðsynlegt að fá það fram á þessu þingi og það fyrr en seinna hvað fjmrh. hefur gert eins og hv. þm. var að minna á og ég tel eðlilegt að bera fram beina fyrirspurn um það atriði til ráðherrans, m.a. vegna þess að ég átti hlut að því og frumkvæði að því að afgreiða þetta mál úr félmn. á 113. þingi.