Afnám tvísköttunar af lífeyrisgreiðslum

14. fundur
Þriðjudaginn 18. október 1994, kl. 14:49:09 (508)

[14:49]
     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég veit ekki til hverra hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson beindi orðum sínum þegar hann talaði um að menn litu svo á að ályktanir Alþingis væru sýndarmennska. Mér fannst hann beina því til þeirra sem tóku þátt í þessari umræðu og hafa fundið að því að núv. fjmrh. hefur ekki gert það við vitum neitt til þess að framfylgja samþykkt þingsins frá 18. mars 1991. Við erum ekki að finna að þessu vegna þess að við lítum svo til að ályktanir Alþingis eigi að vera sýndarmennska, síður en svo. Þvert á móti ætlumst við til að framkvæmdarvaldið standi við samþykktir þingsins og starfi í anda þeirra samþykkta eins og hér hefur komi fram af hálfu margra þeirra sem tekið hafa þátt í umræðunni. Það er verkefni sem menn þurfa að sinna á Alþingi að ýta á eftir því að þannig sé haldið á málum því að þess eru vissulega allt of mörg dæmi að samþykktir þingsins hafi farið í glatkistuna og lítið verið með þær gert.
    Hér er stórt mál á ferðinni sem ég styð efnislega og hef rakið hvernig ég hef reynt að veita því stuðning. Það er alveg ljóst að fyrrv. ríkisstjórn, þó ekki sé ástæða til að vera að metast mikið um þá hluti hér, hafði ekki mikið færi á að fjalla um þetta mál sem gerð var samþykkt um á þinginu 18. mars 1991, ég held að það hafi verið kosið 23. apríl eða örfáum vikum síðar og síðan fóru fram stjórnarskipti.