Málefni Ríkisútvarpsins

14. fundur
Þriðjudaginn 18. október 1994, kl. 15:09:48 (517)

[15:09]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Hv. þm. Svavar Gestsson boðaði í síðustu viku umræðu á hv. Alþingi um málefni Ríkisútvarpsins vegna þess eins og hann sagði þá ,,hvernig Sjálfstfl. legði Ríkisútvarpið í einelti``. Því þyrfti að fara fram umræða um stöðu Ríkisútvarpsins andspænis Sjálfstfl. sérstaklega um þessar mundir eins og hv. þm. orðaði það og hefur raunar endurtekið núna. Þingmaðurinn taldi óþolandi fyrir Ríkisútvarpið að stofnunin sé lögð í pólitískt einelti af stærsta stjórnmálaflokki landsins.
    Væri þetta svo er vissulega ástæða til umræðu. Nú er hins vegar efnt til umræðu um málefni Ríkisútvarpsins í ljósi nýlegra atburða innan stofnunarinnar eins og tilkynnt var af forsetastóli. Með öðrum orðum uppsögn eins, og nú raunar þriggja, af pistlahöfundum Ríkisútvarpsins. Það hefur komið á daginn að einu pólitísku afskiptin sem verið hafa í þessu máli eru afskipti hv. þm. Svavars Gestssonar sem kann ekki við hvernig haldið er á starfsmannamálum Ríkisútvarpsins og krafðist þess vegna þessarar umræðu. Þessi sýnist mér vera hin einu pólitísku afskipti. Sjálfstfl. hefur þarna hvergi komið nærri, menntmrn. eða ég sem ráðherra ekki heldur. Þetta pólitíska einelti er því ekkert annað en hugarórar hv. þm.
    Það er hlutverk yfirmanna Ríkisútvarpsins að taka ákvarðanir um ráðningar og uppsagnir starfsfólks á stofnuninni annarra en þeirra sem ráðherra skipar samkvæmt útvarpslögum. Uppsögn pistlahöfunda er þess vegna alfarið í höndum stjórnenda Ríkisútvarpsins, í þessu tilviki dagskrárstjóra Rásar 2. Hins vegar er alveg nýtt ef því er haldið fram að dagskrárstjórinn gangi erinda Sjálfstfl. og satt að segja dálítið sérkennileg kveðja til hans úr þessari átt. Dagskrárstjóri hefur ákveðnum skyldum að gegna gagnvart Ríkisútvarpinu og ber fulla ábyrgð á ákvörðunum sínum. Hann skal að sjálfsögðu gæta þess að útvarpslögum sé fylgt og reglum Ríkisútvarpsins. Ríkisútvarpið mótar starf sitt innan þess ramma sem löggjöfin setur og framkvæmdarvaldið raunar með reglugerð á grundvelli þeirra laga. Engar samræmdar heildarreglur eru í gildi, sagði hv. þm. Þetta er beinlínis rangt. Það eru reglur í gildi sem Ríkisútvarpð sjálft hefur sett sér auk lagaákvæðanna. Í 15. gr. útvarpslaga segir svo um skyldu Ríkisútvarpsins, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Ríkisútvarpið skal leggja rækt við íslenska tungu, sögu þjóðarinnar og menningararfleifð.
    Ríkisútvarpið skal halda í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur og mannréttindi og frelsi til orðs og skoðana. Það skal gæta fyllstu óhlutdrægi í frásögn, túlkun og dagskrárgerð.
    Ríkisútvarpið skal m.a. veita almenna fréttaþjónustu og vera vettvangur fyrir mismunandi skoðanir á þeim málum sem efst eru á baugi hverju sinni eða almenning varða.``
    Kjarni málsins í því tilviki sem hér um ræðir, þ.e. brottvikning pistlahöfundar, er að hann hafi að mati yfirmanna stofnunarinnar ekki virt lög eða reglur um óhlutdrægni. Það er auðvitað í eðli sínu álitamál hvenær menn fara yfir strikið eins og það er orðað þegar um er að ræða að gætt sé óhlutdrægni. Það mat verður hins vegar í þessu tilfelli að vera í höndum yfirmanna Ríkisútvarpsins og verður ekki fært hingað inn í sali Alþingis. Engum blandast hugur um að það er ekki óhlutdrægni ef mönnum eru gerðar upp skoðanir eða hugsanir né aðgerðir þeirra túlkaðar frá ákveðnu sjónarhorni hvert svo sem sjónarhornið er. Lögin kveða afdráttarlaust á um að gætt skuli fyllstu óhlutdrægni í frásögn, túlkun og dagskrárgerð. Því má ekki gleymast að í Ríkisútvarpinu er mönnum tæpast frjálst að túlka að eigin vild skoðanir og hugsanir annarra. Lögin kveða einfaldlega svo á. Það er allt annað en að vera vettvangur fyrir mismunandi skoðanir á þeim málum sem efst eru á baugi hverju sinni er almenning varða. Ég ítreka að það er ekki í verkahring menntmrh. að hafa áhrif á ákvarðanir sem þessar og ég met það mjög við hv. málshefjanda að biðja mig ekki um að gera slíkt. Það er ekki í verkahring stjórnmála að blanda sér inn í slíkt mál nema um sé að ræða lagabrot hjá yfirmönnum tiltekinnar stofnunar. Það verður ekki séð að um slíkt sé að ræða í þessu tilviki.
    Þá verður það að teljast pólitísk afskiptasemi hjá hv. þm. Svavari Gestssyni að taka þetta mál hér upp á hv. Alþingi. Enda raunar gert með rangfærslum og hreinum ósannindum. Þetta er mál yfirmanna Ríkisútvarpsins en ekki Alþingis.