Málefni Ríkisútvarpsins

14. fundur
Þriðjudaginn 18. október 1994, kl. 15:15:56 (518)

[15:15]
     Pétur Bjarnason :
    Virðulegi forseti. Þetta sérstæða mál er í raun kærkomið tækifæri til að ræða stöðu Ríkisútvarpsins einkum með tilliti til samkeppni fjölmiðla, þróunar þeirra og nauðsynjar þess að þeir séu tæki til tjáningar sem flestra sjónarmiða. Brottrekstur þeirra Illuga Jökulssonar og Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar er aðför að mál- og tjáningarfrelsi þó að alls ekki sé hægt að leggja dæmi þeirra að jöfnu því brottrekstur Hannesar Hólmsteins er friðþæging á því að Illugi var rekinn, eins konar peðsfórn í stöðunni.
    Hér er greinilega ekki gerður munur á persónulegri umfjöllun einstakra pistlahöfunda undir nafni annars vegar og hlutlausum fréttum og almennri umræðu hins vegar. Einkum þegar það er haft í huga að mennirnir voru sérstaklega ráðnir til að rækja þetta hlutverk í þessu tilviki, hvor frá sínum sjónarhól. Annað sem blasir við af þessum dæmum og þarfnast endurskoðunar er réttleysi það sem allir lausráðnir starfsmenn Ríkisútvarpsins búa við. Pólitíkin í þessu máli er þannig ekki síst starfsmannapólitík. Starfsmenn eru ráðnir sem verktakar en ekki launþegar og þar með njóta þeir ekki orlofs, lífeyris eða veikindaréttar og einkum er þetta mál varðar njóta þeir ekki uppsagnarfrests. Sá sem hér talar þekkir þetta lítillega af eigin raun. Síðasta vor varð ég fyrirvaralítið að hætta um skeið störfum við dagskrárgerð á Rás 1 án þess að mér væri nokkru sinni sýndar þær reglur sem um málið gilda. Starfið sem ég mátti ekki gegna varðaði kvöldvökuþætti á Rás 1 þar sem flutt er þjóðlegt efni sjaldnast yngra en hálfrar aldar gamalt, annálabrot og þjóðsögur. Eina hlutverk umsjónarmanns er að kynna þetta efni og hæfilegan skammt af íslenskri tónlist með. Ástæðan: Ég var 8. varamaður Framsfl. í bæjarstjórn Ísafjarðar. Mér er spurn: Er þetta ekki farið að ganga of langt? Þó einhver viðkvæmni komi upp við framboð til bæjarstjórnar í Reykjavík þarf það endilega að bitna á öllum landsmönnum jafnt í sveit og í þorpum? Á Ríkisútvarpið, útvarp allra landamanna að vera svo gerilsneytt, svo steingelt, að enginn nenni lengur að hlusta eða horfa á það þegar kosningar nálgast heldur beini hlustun sinni eða áhorfi eins og það heitir víst núna til annarra stöðva?
    Nú er ég ekki að mælast til að frambjóðendur tröllríði dagskrá stofnunarinnar í dægurþáttum og umfjöllun um líðandi stund. En það er líka hægt að ganga of langt í aðgæslunni. Það má líka minna á stjórnsýslulög sem kveða skýrt á um rétt starfsmanns til að tjá sig um brottvikningu, rétt hans til að kynna sér málsgögn og til að andmæla áður en ákvörðun er tekin. Í fersku minni margra er mál Magnúsar Jónssonar fyrir nokkrum árum, þá veðurfræðings, sem ekki fékk að segja landsmönnum frá veðurhorfum næsta sólarhring vegna pólitískrar ólyktar sem forráðamenn sjónvarpsins þóttust finna af honum og hæfði ekki skjánum. Það mál fór til umboðsmanns Alþingis sem gaf sjónvarpinu tiltal og óskaði eftir því að reglur þess væru endurskoðaðar. Þeim var víst að einhverju leyti breytt. Hvernig á Rás 2 að kalla sig dægurmálaútvarp ef það á að sleppa pólitík og raunhæfri umfjöllun um hana á kosningaárum? Verður þá ekki líka að fara að reka sófaliðið sem kemur í spaklega viðtalsþætti um helgar og oftar til að ræða dægurmál og stjórnmál og leyfir sér jafnvel að hafa skoðanir á hlutunum? Á kannski að fara að ritskoða það sem þar er sagt?
    Þetta mál snýst ekki síst um starfsmannastefnu Ríkisútvarpsins og því hlýt ég að taka undir með stjórn Blaðamannafélags Íslands í ályktun sem gerð var á stjórnarfundi 14. þessa mánaðar en þar segir m.a., með leyfi hæstv. forseta: ,,Tími er til kominn að stjórnvöld stöðvi þessa öfugþróun og taki til í eigin garði hjá sjálfu Ríkisútvarpinu.``